Ótrúleg tilviljun: Mannanafnanefnd fær á baukinn í tveimur barnalögum

Pollapönk sendi í gær frá sér Mannanafnalagið, sem er fyrsta smáskífan af væntanlegri plötu hljómsveitarinnar. Lagið fjallar um meintan mannafnaglundroða á Íslandi vegna þess að það sem má heita í dag má ekki endilega heita á morgun.

Að Pollapönk sendi frá sér lag um þetta málefni væri svo sem ekki í frásögur færandi nema vegna þess að Memfismafían gerði það sama á mánudag.

Nútíminn sagði frá laginu Mannanafnanefnd sem er af væntanlegri barnaplötu sem heitir Karnivalía. Bæði lögin má heyra hér fyrir neðan.

Pollapönkarinn Heiðar Örn Kristjánsson segir að um tilviljun sé að ræða. Spurður hvort að einhvers konar stríð milli Pollapönks og Memfismafíunnar segir hann það ekki ólíklegt. „Menn eru að skora hvern annan á hólm í mannanafnalagaeinvígi!“

Hann segir að hugmyndin hafi kviknað þegar fréttir bárust af því að þau Ómar Örn Hauksson og Nanna Þórdís Árnadóttir fengu ekki að nefna dóttur sína Alex Emma.

Þau skírðu barnið ósamþykktu nafni og voru farin að fá dagsektir! þvílíka bullið.

Nútíminn hafði einnig samband við Braga Valdimar Skúlason, höfund lagsins Mannanafnanefnd. Hann tók undir með Heiðari um að algera tilviljun væri að ræða.

„Þó ég vilji náttúrulega meina að þessir pörupiltar séu bara að herma,“ bætti hann við léttur.


 

Auglýsing

læk

Instagram