Reykjavíkurdætur vinna til tónlistarverðlauna Evrópusambandsins

Stórsveitin Reykjavíkurdætur unnu í dag tónlistarverðlaun Evrópusambandsins, Music Moves Europe Forward Talent Awards og komast því á spjöld sögunnar við hlið þekktra tónlistarmanna á borð við Lykke Li, Disclosure, MØ og Adele.

Verðlaunin eru á vegum Evrópusambandsins og eru veitt evrópsku tónlistarfólki sem þykir skara fram úr á sínu tónlistarsviði en bæði Ásgeir Trausti og Of Monsters and Men hafa hlotið þessi verðlaun áður. Stúlkurnar í Reykjavíkurdætrum eru hins vegar fyrsta íslenska sveitin sem vinnur til verðlauna í flokki rapp og hip hop tónlistar.

https://www.instagram.com/p/BqaKmm0ALVY/?utm_source=ig_web_copy_link

Verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 2003 og er stefna þeirra að vekja athygli á evrópsku tónlistarlífi og stuðla að dreifingu tónlistar milli landa. Verðlaunin eru því mikill heiður eins og gefur að skilja, enda Evrópa stútfull af hæfileikaríku tónlistarfólki. Rappsveitin knáa deilir verðlaununum með belgísku sveitinni Blackwave en vaninn er að veita tvenn verðlaun í hverjum flokki fyrir sig.

Verðlaunaafhendingin sjálf fer fram á Eurosonic-tónlistarhátíðinni sem haldin verður með pompi og prakt í Hollandi dagana 16.-19.janúar. Reykjavíkurdætur eru í skýjunum með verðlaunin eins og má sjá á samfélagsmiðlum stúlknanna.

Sveitin var stofnuð árið 2013 og skartar nokkrum færustu tónlistarkonum, leikkonum, listamönnum og röppurum landsins. Reykjavíkurdætur hafa farið sigurför um heiminn og sópa að sér aðdáendum hvert sem þær fara en Reykjavíkurdætur hafa spilað á tugum tónlistarhátíða. Sveitin vekur ekki aðeins athygli fyrir stærð sína og kyn heldur stórgóða textasmíð, hárbeitta pólitík og niðurrif feðraveldisins en þær Reykjavíkurdætur kalla ekki allt ömmu sína.

Í sumar gáfu þær út smellinn Ekkert drama með stórsöngkonunni Svölu Björgvins.

Auglýsing

læk

Instagram