Sala hafin á grænu peysum Daða og Gagnamagnsins, ætlar til Kambódíu að búa til tónlist

Grænu peysurnar sem Daði og hljómsveitin Gagnamagnið klæddust þegar þau tóku þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins eru loksins komnar í sölu. Hægt verður að kaupa sex ólíkar peysur, þ.e. með andliti hvers og eins í hljómsveitinni; Daða Frey, Árnýju, Stefáni, Huldu, Jóa og Sigrúnu.

Aðdáendur sveitarinnar geta keypt peysurnar í forsölu á www.dadifreyr.com og hefur verið opnað fyrir sölu á peysunum. Þær verða afhentar eftir mánuð, eða fyrstu helgina í maí, í verslun Iceware að Laugavegi 91.

Daði segist í samtali við Nútímann vona að peysurnar verði jafn vinsælar og treyja íslenska karlalandsliðsins í fótbolta var síðasta sumar þegar liðið var að spila á EM í Frakklandi.

Ég vona það. Ég vona að þegar ég kem til Íslands verði annar hver maður í Daðapeysu.

Daði er væntanlegur til landsins um miðjan júní og ætlar að vera á landinu í sumar. Hann ætlar fyrst og fremst að knúsa fólkið sitt og halda tónleika.

Daði og Árný, kærasta hans og meðlimur í Gagnamagninu, ætla síðan til Kambódíu undir lok ársins og ætla að dvelja þar í hálft ár. Árný er að læra mannfræði og ætlar að sögn Daða að „mannfræðast“ en sjálfur ætlar hann að búa til tónlist. „Svo ætlum við að skoða nýjan stað og upplifa eitthvað nýtt,“ segir hann.

Auglýsing

læk

Instagram