Segir Guðmund í Brimi hafa lánað Reyni 15 milljónir

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, birtir pistil um baráttuna um DV á vefsíðu sinni í dag. Þar vitnar hann í nýjasta pistil Sigurðar G. Guðjónsonar á Pressunni en þar segir:

Reynir Traustason ætti í nafni þess gagnsæis, heiðaleika og siðprýði í viðskiptum sem hann telur sig standa fyrir, að upplýsa allan almenning um,og ekki hvað síst lesendur DV og DV.is hvernig honum áskotnuðust kr. 15.000.000 til að leggja fram persónulega sem hlutafé í DV ehf. Svona í Sandkornsstíl DV getur sagan af lánveitingunni hljóðað einhvern veginn á þennan veg: Reynir fór á fund útgerðarmanns sem átti í deilum við annan. Sá sem Reynir fór til lét Reyni fá fé. Og blaðið jafnvel líka. DV fór í framhaldi að segja frá deilum útgerðarmannanna á forsendum þess sem borgaði.

Elliði fullyrðir að þarna sé rætt um Guðmund Kristjánsson, útgerðarmann í Brimi, og að hann hafi lánað Reyni Traustasyni, ritstjóra DV, 15 milljónir „Í þeim tilgangi að losa sjálfan sig við umfjöllun um ýmis mál og fá í staðin umfjöllun um meðeigendur sýna i Vinnslustöð Vestmannaeyja og þá helst Sigurgeir Brynjar (Binna í Vinnsló).“

Fjölmiðlar hafa fjallað um aðalfund DV ehf. í gær sem hófst í raun aldrei formlega en var loks frestað. Viktoría Hermannsdóttir, blaðakona á DV, var á fundinum og segir á Facebook-síðu sinni upplifun sína ekki ríma við þá sem kemur fram í ofangreindum pistli Sigurðar G.:

Ég ætla ekki að tjá mig mikið um þetta en eitt get ég sagt og það er það að ef gengið sem sat þarna með Sigga G. tekur yfir blaðið þá er þetta búið spil. Þessir menn höfðu eitthvað allt annað í huga heldur en að stuðla að frjálsri og óháðri fjölmiðlun.

Auglýsing

læk

Instagram