Settist í sæti fræga fólksins á Grammy-hátíðinni

Íslendingar áttu einn fulltrúa á meðal þeirra sem voru tilnefndir til Grammy-verðlauna í ár en hátíðin fór fram í Los Angeles í gær. En það þarf að leysa fleiri hlutverk á hátíðum sem þessum.

Athafnakonan Soffía Kristín Jónsdóttir tók þó að sér að vera svokallaður sætafyllir á hátíðinni. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Í Morgunblaðinu kemur fram að Soffía er félagi í Grammy University og var því boðið að sækja um allskonar hlutverk í Grammy-vikunni. Hún sótti um að vera sætafyllir enda var það langmest spennandi að hennar sögn.

Ég var svo heppin að vera valin. Og já, ég á að setjast í sæti þeirra frægu á meðan þau þurfa að stíga afsíðis þegar sjónvarpsútsending er í gangi. Það mega nefnilega hvergi sjást laus sæti meðan á útsendingunni stendur.

Í Morgunblaðinu kemur einnig fram að Soffía vinnur með Steinunni Camillu, sem áður var í The Charlies, og fyrirtækinu IcelandSync. Saman vinna þær að því að kynna íslenska tónlistarmenn í Bandaríkjunum.

„Það hafa nokkrir íslenskir tónlistarmenn haft samband við okkur til að kynna sig og biðja um góð ráð sem er frábært,“ segir hún.

„Svo erum við byrjaðar að bóka tónleikaferðalag fyrir Natöshu Agrama og líka að hjálpa Ölmu og Klöru á rétta braut eftir endalok Charlies. Það er allt mjög spennandi.“

Auglýsing

læk

Instagram