Sigmar lætur menn heyra það: „Óþolandi að stjórnarmaður RÚV tjái sig með þessum hætti“

Kristinn Dagur Gissuarson, stjórnarmaður RÚV og bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Kópavogi, sagði í síðdegisútvarpi Útvarps Sögu að frammistaða Reykjavíkurdætra hafi verið hálfgerð klámsýning. Hann sagðist ætla að kalla eftir viðbrögðum útvarpsstjóra á stjórnarfundi RÚV í dag.

Sjá einnig: Stjórn RÚV ræðir framgöngu Reykjavíkurdætra: „Hálfgerð klámsýning í þætti Gísla Marteins“

Hann gagnrýndi líka fréttaflutning RÚV í viðtalinu. „Ég verð nú að segja það að ég hef nú látið í mér heyra á stjórnarfundum um að mér finnst RÚV á stundum um of ástunda það sem er kallað gulu pressu fréttamennsku,“ sagði hann.

Það er verið að varpa fram fréttum sem eru þess eðlis að þær eiga ekkert að vera í ríkisfjölmiðlum. Þetta eru svona „lágkúrulegar fréttir“.

Sigmar Guðmundsson, annar stjórnenda Morgunútvarpsins á Rás 2 segir á Facebook-síðu sinni í dag að Kristinn Dagur sé að hóta starfsfólki RÚV. „Enn einu sinni er starfsfólki RÚV hótað af stjórnmálamanni með völd,“ segir hann.

„Að þessu sinni af bæjarfulltrúa í Kópavogi sem einnig á sæti í stjórn RÚV. Gísli Marteinn skal halda sig á mottunni og útvarpsstjóri gæti fokið ef skoðunum stjórnarmannsins á list sé ekki fylgt.“

Sigmar segir í kaldhæðni að Reykjavíkurdætur og ögrandi listviðburðir megi nefnilega ekki sjást í sjónvarpi allra landsmanna. „Og fréttastofan flytur því miður ekki réttar fréttir að mati framsóknarmannsins,“ segir hann.

„Það er óþolandi og ólíðandi að stjórnarmaður RÚV tjái sig með þessum hætti. Með lítt duldum hótunum sem eru á pari við fræg ummæli formanns fjárlaganefndar um hagræðingarhóp, sem í einu vetvangi breyttist skoðanalöggu með vald til að fjársvelta til bana. Skilaboðin eru þessi: Ef dagskráin er ekki rétt þá má reka útvarpsstjórann. Ef fréttaflutningur er ekki réttur þá grípur fjárveitingarvaldið í taumana.“

Sigmar segir að Kristinn Dagur Gissurarson átti sig ekki á stjórn ríkisútvarpsins eigi ekki að skipta sér af dagskrá RÚV. „Slíkt tíðkast ekki í þessum heimhluta árið 2016 og með ólíkindum að kjörinn fulltrúi eigi ekki heimskort, dagatal og smá söguskilning til að átta sig á því,“ segir hann.

Hann tekur fram að þetta snúist ekki um Reykjavíkurdætur og skoðun stjórnarmannsins á þeim.

„Þetta snýst um stjórnmálamann sem getur beitt afli sínu til að ritskoða efni fjölmiðils með því að láta hausa fjúka. Og virðist því miður hafa vilja til að beita því afli. Ég vona að blaða- og fréttamenn geti lagt ríg á milli miðla til hliðar og staðið vörð um frelsi fjölmiðla, hvort sem þeir eru í einkaeigu eða eign almennings. Ekki veitir af.“

Auglýsing

læk

Instagram