Skiptar skoðanir um mótmæli á komu Mike Tyson: „Það er lítil þöggun um ofbeldi Tyson“

Hnefaleikakappinn Mike Tyson er væntanlegur til landsins í haust með sýningu sína: The Undisputed Truth. Hópurinn Aktívismi gegn nauðgunarmenningu hóf undirskriftasöfnun á internetinu í vikunni þar sem komu Tyson til landsins er mótmælt.

Sjá einnig: Mótmæla komu Mike Tyson til landsins

Elísabet Ýr Atladóttir, ein meðlima hópsins, segir í samtali við Fréttablaðið í dag ómögulegt að maður eins og Mike Tyson sé settur upp sem einhvers konar fyrirmynd fyrir karla. Hann var dæmdur fyrir að nauðga hinni 18 ára gömlu Desiree Washington árið 1992.

„Við berum öll ábyrgð á því að menn geti ekki sópað brotum sínum undir teppið. Með því að gefa pláss fyrir þessa sýningu værum við í raun að gefa samþykki fyrir því að hann tæki aldrei ábyrgð,“ segir hún í Fréttablaðinu.

Við værum að gefa í skyn að brot hans gegn þessum konum sé ekki nógu mikilvægt, ekki nógu alvarlegt, að okkur finnist hans ferill mikilvægari en þeirra réttlæti. Sem samfélag verðum við að gefa skýr skilaboð til ofbeldismanna að við tökum ekki þátt í þögguninni lengur.

Mikael Torfason, rithöfundur og fyrrverandi ritstjóri, segir á Facebook-síðu sinni að það sé lítil þöggun um ofbeldi Mike Tyson.

„Maðurinn sat í fangelsi í nokkur ár. Ég held það sé oftast tekið fram í umfjöllun um manninn. Við reisum friðarsúlu sem kveikt er á á afmælisdegi Lennons og hann var wife-beater.

Það er eiginlega aldrei tekið fram í umfjöllun um Bítlana. Þeir voru jú ekki svartir eins og Pawel bendir á á Facebook í dag,“ segir Mikael og vísar í orð stærðfræðingsins Pawels Bartoszek sem bent á eftirfarandi á Facebook-síðu sinni:

„Paul McCartney notaði börn sín sem burðardýr fyrir eiturlyf. John Lennon lamdi allar konur sem hann kom nálægt. En það loðir betur við svart fólk að vera skrímsli. Þeim ert aldrei fyrirgefið.“

Þá segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu – félags fanga og annarra áhugamanna um fangelsismál og betrun, í pistli á vef félagsins að það sé sorglegt að viðhorf, um að einstaklingur skuli aldrei hljóta uppreist æru, séu enn við lýði á Íslandi.

„Hvernig getum við ætlast til þess að einstaklingur sem hefur setið af sér dóm geti breyst og betrast ef að samfélag manna mun aldrei taka hann í sátt að nýju – ALDREI.

Það er því með hreinum ólíkindum að verða vitni af forneskjulegum viðhorfum þar sem hópur manna í samfélagi vill gera aðra hornreka. Það er nefnilega ekki nóg að líta bara svo á að tilgangur fangavistar eigi að vera betrun ef samfélagið er síðan ekki tilbúið til að samþykkja einstaklinginn að afplánun lokinni.

Við eigum því að fagna þegar fólk eins og Mike Tyson kemur fram með það aðð markmiði að nýta reynslu sína, öðrum víti til varnaðar, samfélaginu öllu í hag.“

Auglýsing

læk

Instagram