Skoðar að veita afslátt af námslánum til að efla byggðir landsins

Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, ætlar að kanna hvort rétt sé að nota námslánakerfið til að hvetja fólk til að setjast að í dreifðum byggðum. Lilja horfir til Noregs eftir fyrirmynd að kerfinu en þar getur fólk fengið tíu prósent lækkun á námslánum árlega hafi það búið á tilgreindum svæðum í tólf mánuði. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.

„Þetta gengur út á að fólk sem býr og vinnur á svokölluðum aðgerðasvæðum og er með námslán gæti sótt um afslátt af námslánum. Í mörgum tilvikum hefur þetta fólk ílengst á svæðinu eftir að námslán þess eru greidd að fullu,“ er haft eftir Lilju í Fréttablaðinu í morgun.

Lilja segir að úrræðið verði unnið í tengslum við heildarendurskoðun námslánakerfisins en ekki liggur fyrir hvenær það geti komist í framkvæmd.

Auglýsing

læk

Instagram