Skot byggir upp sjónvarpshluta Nútímans

Auglýsing

Frétta- og afþreyingarvefurinn Nútíminn og framleiðslufyrirtækið Skot hafa skrifað undir samstarfssamning.
Samningurinn felur meðal annars í sér að Skot byggir upp sjónvarpshluta Nútímans sem verður opnaður á næstu vikum.

Skot mun framleiða og birta á Nútímanum fjölbreytt myndbönd sem tengjast málefnum líðandi stundar ásamt reglulegum þáttum og öðru efni.

Inga Lind Karlsdóttir og Hlynur Sigurðsson eru eigendur Skots. Þau hafa bæði mikla reynslu af fjölmiðlastörfum og dagskrárgerð. Skot er nýtt framleiðslufyrirtæki sem sinnir fyrst og fremst innlendri dagskrárgerð.

Sjá einnig: Lækaðu Skot á Facebook

Auglýsing

Nútíminn kom með látum fram á sjónarsviðið síðasta haust og er á stuttum tíma orðinn einn helsti frétta- og afþreyingarvefur landsins. Nútíminn var valinn besti vefmiðillinn á Íslensku vefverðlaununum í fyrra ásamt því að Atli Fannar Bjarkason, ritstjóri Nútímans, var valinn vefhetja ársins á Nexpo-verðlaununum í ár.

Nútíminn er í eigu Atla Fannars og Guðmundar S. Jónssonar. Samningurinn við Skot felur ekki í sér breytingar á eignarhaldi vefsins.

Inga Lind segir að Skot vilji fyrst og fremst framleiða fjölbreytilegt og skemmtilegt efni — bæði fyrir sjónvarp og net.

Við viljum vinna með metnaðarfullu fólki á hverju sviði. Atla og Gumma hefur tekist á einu ári að búa til frábæran miðil fyrir ungt fólk á öllum aldri og við hlökkum mikið til samstarfsins.

Atli Fannar segir að um gríðarlega spennandi samning sé að ræða.

„Allir sem hafa kveikt á tölvu þekkja sjóðandi heitt ástarsamband internetsins og myndbanda. Með samstarfinu við Skot viljum við einfaldlega svara eftirspurn notenda Nútímans ásamt því að bjóða upp á eitthvað nýtt og skemmtilegt. Ferskar hugmyndir og ný andlit verða í forgrunni á sjónvarpshluta Nútímans og ég hlakka til að vinna að þessu spennandi verkefni með reynsluboltunum Ingu Lind og Hlyni.“

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram