Snorri Björns segir söguna á bakvið brúðkaupsbíl Jóns Ragnars og Hafdísar: Beige-litaða bjallan lifnaði við

Tónlistarmaðurinn Jón Ragnar Jónsson og unnusta hans, tannlæknirinn Hafdís Björk Jónsdóttir giftu sig í gær. Mikil stemning var í veislunni en á meðal þeirra sem komu fram voru Sálin hans Jóns míns og Emmsjé Gauti. Björn Bragi og Ingunn Guðmundsdóttir voru veislustjórar.

Brúðkaupsbíllinn vakti mikla athygli en um var að ræða beige-litaða bjöllu í eigu Björns, föður ljósmyndarans og Snapparans Snorra Björnssonar. Snorri segir söguna af bjöllunni á Instagram-síðu sinni en hún er ansi skemmtileg og hefst fyrir nokkrum áratugum í Hvassaleiti.

„Á unglingsárum pabba lagði hann bílskúr fjölskyldunnar undir nýtilfundið áhugamál sitt: að gera upp bjöllur,“ segir Snorri sem gaf Nútímanum góðfúslegt leyfi til að birta söguna.

„Frá 15 ára aldri hafði hann auga á beige litaðri bjöllu sem stóð fyrir utan hús í Hvassaleiti. Nokkrum áratugum seinna eru pabbi og mamma á leiðinni heim af fæðingardeildinni með þriðja son sinn og pabbi skýst út í búð. Á kassanum kaupir hann í fyrsta og eina skipti ævinnar dablaðið. Í miðju blaðinu sér hann beige litaða bjöllu til sölu, þá sömu og hann dreymdi um á sínum uppvaxtarárum.“

Snorri segir að faðir hans hafi hringt samstundis í seljandann sem var eldri kona. „[Hún] var búin að fá símtal frá hálfum bænum og búin að lofa öðrum manni að kaupa bjölluna,“ segir Snorri.

Pabbi neitar að gefast upp, mætir heim til hennar og útskýrir að þetta sé bjallan sem hann er búinn að þrá frá 15 ára aldri. Deginum eftir hringjast þau á og konan segist hafa hugsað mikið um málið og ákveður að gefa honum kauprétt á bjöllunni, sem var að sjálfsögðu keypt á staðnum.

Fjölskyldan beið svo spennt eftir nýja bílnum og að komast á fyrsta rúntinn. „Vegna full háleitra yfirlýsinga um fegurð bílsins, á ég að hafa spurt hvenær við færum aftur heim áður en pabbi komst út úr götunni,“ segir Snorri léttur.

„Þrátt fyrir að fara ekki oft í gang og eiga fleiri slæma daga heldur en góða á ég endalaust af góðum minningum um bjölluna. Síðustu ár hefur bjallan verið í niðurníðslu og aldrei gefist tími til að gera hana upp. Mörg áhugamál hafa kviknað upp í millitíðinni og aðrir bílar fengið forgang í yfirhalningu.“

Það var svo fyrir hálfu ári sem Jón Jónsson hringir í föður Snorra og segist hafa frétt af fallegri beige-litaðri bjöllu sem hann ætti á lager. Hann ætlaði nefnilega að gifta sig um sumarið og þetta var akkúrat bjallan sem brúðhjónin vildu keyra á brúðkaupsdaginn.

„Maðurinn vissi eflaust ekki mikið um ástand bílsins en þarna var komin ástæða til að koma bílnum á göturnar í eitt skipti fyrir öll,“ segir Snorri.

„Ég veit ekkert um bíla og bílaviðgerðir en ég veit að þetta verkefni var umsvifamikið því ég hef lítið sem ekkert séð pabba síðustu daga. Þetta mátti ekki tæpara standa, bjallan stóðst skoðun 30. júní og brúðhjónin keyrðu burt frá kirkjunni í gær, 1. júlí.
“

Snorri lýkur færslu sinni á því að óska brúðhjónunum til hamingju og auðvitað föður sínum með ástandsskoðunina.

Auglýsing

læk

Instagram