Strákarnir okkar fengu einkauppistand frá Sóla Hólm: „Þeir voru frábærir og þeirra fólk“

Grínistinn og fjölmiðlamaðurinn Sóli Hólm tróð upp fyrir karlalandsliðið í fótbolta í kvöld. Nú styttist í að strákarnir haldi til Rússlands á heimsmeistaramótið í fótbolta og þrátt fyrir að spennustigið sé eflaust gríðarlega hátt tóku þeir vel í grínið.

Eftir því sem Nútíminn kemst næst þá kom ósk úr herbúðum landsliðsins að fá Sóla á svæðið. Síðasta verkefni strákanna fyrir HM er æfingarleikur gegn Gana á fimmtudaginn en Sóli hefur ferðast um landið með uppistand sitt sem hóf göngu sína á Hard Rock í miðborg Reykjavíkur.

Það er stutt í grínið hjá Sóla á Facebook sem segir um uppistandið fyrir strákana að það sé mikilvægt að gefa af sér til aðdáenda. „Ef einhver hefði sagt við þrettán ára bekkjartrúðinn Sóla Hólm að einn daginn yrði hann beðinn að mæta með eigin uppistandssýningu og flytja einkashow fyrir karlalandsliðið — nokkrum dögum áður en þeir fara út á HM, þá hefði ég brókað hann,“ segir Sóli léttur og heldur áfram í kaldhæðnum tón:

En ég gerði það nú samt í kvöld og það er ótrúlega gefandi að leyfa þessum mönnum að vera in the presence of a great comedian.

Sóli segir í samtali við Nútímann að uppistandið hafi gengið frábærlega. „Þrír landsliðsmenn komu til mín fyrir show og vöruðu við því að þetta væri erfitt crowd,“ segir hann. „En ég gat ekki merkt það, þeir voru frábærir og þeirra fólk.“

Og Sóli vill þakka kærlega fyrir sig. „Auðvitað er heiðurinn allur minn. Áfram Ísland.“

Auglýsing

læk

Instagram