Súperdós af Coke þykir of stór skammtur og hverfur af markaði: „Tímarnir eru að breytast“

Súperdósin frá Coca Cola hverfur af markaði á Íslandi á næstunni. Framleiðslu á Kóki í hálfslíters dósum verður hætt en ástæðan er stefna Coca-Cola að sýna ábyrgð hvað varðar skammtastærðir og bjóða þannig ekki upp á stærri skammt en 330 ml í umbúðum sem ekki eru endurlokanlegar.

Súperdósin fékk nafn sitt fljótlega eftir að hún kom á markað á Íslandi snemma á tíunda áratugnum. Magnús Viðar Heimisson vörumerkjastjóri Markaðs- og Sölusviðs hjá Coca Cola á Íslandi segir hálfslíters dós sé of stór eining til neyslu í einum skammti, samkvæmt stefnu Coca Cola.

„Ísland eina landið í Evrópu sem ennþá bauð upp á slíka vöru til sölu til neytenda,“ segir hann í samtali við Nútímann.

Fyrir þá neytendur sem vilja kaupa 500 ml stendur 500 ml plastflaskan til boða, en sú eining er endurlokanleg og hægt að neyta vörunnar í fleiri en einum skammti.

Magnús viðurkennir að einhverjir neytendur eigi eftir að sakna súperdósarinnar. „En tímarnir eru að breytast og mikil þróun að eiga sér stað hvað varðar neysluvenjur og vöruval sem íslenski markaðurinn, með tilkomu Coca-Cola European Partners samstarfsins, getur núna tekið fullan þátt í rétt eins og nágrannalönd okkar,“ segir hann.

Í staðinn fyrir súperdósina verður á næstunni boðið upp á ennþá minni dósir, í stærðum 150 ml upp í 250 ml.

Auglýsing

læk

Instagram