Sveinn og Hanna ferðast um heiminn og passa gæludýr fyrir fólk: „Í dag lifum við fyrir þetta“

Hjónin Sveinn Grétar Jónsson og Hanna Kristín Guðmundsdóttir vildu finna sér eitthvað að gera eftir að þau hættu að vinna. Í dag ferðast þau um heiminn og passa gæludýr fyrir ókunnugt fólk.

Sveinn segir í samtali við Nútímann að þau hjónin séu í sjálfboðastarfi. „Við erum að hjálpa fólki að heimsækja vini og ættingja og gera annað sem það langar til að gera en getur ekki þar sem það getur ekki skilið dýrin eftir og vill helst ekki koma þeim fyrir á gistisvæðum,“ segir Sveinn.

Í dag lifum við fyrir þetta.

Sveinn segir að þau hjónin hafi byrjað að passa dýr hjá fólki í fyrra þegar þau voru að leita sér að einhverju til að gera eftir að þau hættu að vinna. „Við vildum ekki verja öllum tímanum fyrir framan sjónvarpið og með þessu höfum við gaman saman og hjálpum öðrum í leiðinni,“ segir hann.

Þau dvöldu í þrjá mánuði erlendis á síðasta ári að passa í tveimur heimahúsum. „Fyrst vorum við að passa fyrir fólk í vestur-Frakklandi sem voru að fara á heilsuhæli og ákváðu, fyrst þau voru með pössun fyrir hundinn, að heimsækja fjölskyldu sína á Spáni,“ segir Sveinn.

„Við fengum svo símtal frá þeim hjónum og vorum beðin um að passa fyrir vinafólk þeirra með viku fyrirvara. Við stukkum á það og vorum að passa fullt af dýrum fyrir þau í tvo mánuði.“

Hjónin leggja af stað í annað tveggja mánaða ferðalag á næstkomand laugardag. Eftir það tekur við pössun í Portúgal og því næst aftur í Frakklandi. „Við verðum á ferðalagi í fimm mánuði og komum nánast ekkert heim fyrr en um verslunarmannahelgina,“ segir hann spenntur.

Tilviljun réði því að þau rákust á síðu sem heldur utan um dýrapössun með þessum hætti. „Við vorum að þvælast á netinu og athuga hvað væri spennandi að gera,“ segir Sveinn.

„Við vorum fyrst að hugsa um húsaskipti en rákumst svo á síðuna Trusted Housesitter og skráðum okkur. Síðan þá höfum við verið að fá óskir frá mörgum stöðum og nánast á hverjum degi. Við höfum fengið beiðnir um pössun frá Ástralíu, Víetnam, Bandaríkjunum og mörgum Evrópulöndum.“

Auglýsing

læk

Instagram