Þriðji atvinnubardagi Sunnu framundan: „Það mætti segja að mig sé búið að klæja í hnúana“

Sunna Rannveig Davíðsdóttir berst í þriðja skipti sem atvinnumaður í blönduðum bardagalistum, MMA, í Kansas City í júlí. Sunna á að baki tvo atvinnubardaga en hún sigraði þá báða.

Sunna mætir bandarísku bardagakonunni Kelly D’Angelo á Invicta FC 24 bardagakvöldinu sem fram fer í hinu sögufræga samkomuhúsi Old Scottish Rite Temple í Kansas City, 15. júlí næstkomandi.

Sunna gekk til liðs við Invicta Fighting Championships, sem er stórt bardagasamband í Bandaríkjunum, í apríl í fyrra. Hún varð þar með atvinnumaður í MMA, blönduðum bardagalistum, fyrst íslenskra kvenna.

Sjá einnig: „Ég á tækifæri til að búa mér og dóttur minni gott líf og bjarta framtíð í gegnum þessa íþrótt“

Þegar Sunna barðist síðast vann hún Mallory Martin í stórkostlegum bardaga sem var valinn bardagi kvöldsins á Invicta FC 22 bardagakvöldinu. Síðan þá hefur Sunna beðið spennt eftir að fá næsta bardaga staðfestan. „Það mætti segja að mig sé búið að klæja í hnúana undangengnar vikur,“ segir hún.

Ég setti mér markmið um að berjast fjórum sinnum á þessu ári og þess vegna er ég afar fegin að fá bardaga svona fljótt aftur.

Andstæðingur Sunnu, Kelly D’Angelo hóf bardagaferilinn í hnefaleikum og vann fimm áhugamannabardaga iáður en hún skipti yfir í blandaðar bardagalistir. Hún vann einnig fimm MMA áhugabardaga áður en hún steig skrefið yfir í atvinnumennsku. Báða atvinnubardaga sína hefur hún klárað, annan með rothöggi og hinn með uppgjafartaki.

„Mér lýst mjög vel á hana. Ég veit lítið um hana annað en það að þetta er heimastelpa. Hún býr í Missouri og verður þar af leiðandi væntanlega með marga stuðningsmenn með sér,“ segir Sunna.

„Svo veit ég að hún er ósigruð á ferlinum bæði sem áhugamaður og atvinnumaður. Ég vil berjast á móti þeim bestu og það eru engir auðveldir andstæðingar í boði hjá Invicta. Það verður því ekkert vanmat hjá mér og ég mun mæta almennilega undirbúin og klár í slaginn þegar þar að kemur.”

Auglýsing

læk

Instagram