Þunglyndir fá oft að heyra að þeir séu latir, mikilvægt að fagna litlu sigrunum

„Hvar liggja mörkin á milli þunglyndis og leti,“ spurði einn þeirra sem skildi eftir athugasemd við færslu sem manneskja sem glímir við þunglyndi deildi á síðunni Imgur fyrr í vikunni og Nútíminn fjallaði um.

Á myndunum mátti sjá sama herbergið, áður en búið var að taka til því og eftir en tiltekin var mikill sigur fyrir þann sem þar býr. Nútíminn ræddi við Silju Björk Björnsdóttur, stofnandi Facebook-hópsins og samfélagsmiðlabyltingarinnar #ÉgErEkkiTabú, um muninn á leti og þunglyndi.

Sjá einnig: Þunglyndissjúklingur tekur til í herberginu sínu, sér loksins í gólfið eftir nokkra mánuði

„Grunnmunurinn þarna á milli er að þunglyndi er sjúkdómur og leti er það ekki. Þegar maður er þunglyndur og er að glíma við svona mikið verður allt sem er venjulegri, eðlilegri manneskju sjálfsagður hlutur, óyfirstíganlegt,“ segir Silja Björk.

Í því að bursta tennurnar felist mörg skref; að standa upp, ganga inn á baðherbergi, finna tannburstann, setja tannkrem á hann og bursta síðan tennurnar. Sá sem glímir við þunglyndi sér öll skrefin fyrir sér, miklar þau fyrir sér og lætur þennan hversdagslega hlut líta út fyrir að vera óyfirstíganlegur.

Silja Björk segir að þegar þunglyndissjúklingur er kominn mjög langt niður geti hann ekki fundið til leti. „Þegar þú ert kominn á þennan stað skipta hlutir ekki máli, þér líður það illa að þú ert bara að einblína á það,“ segir Silja Björk.

Þegar maður er þunglyndur er maður að glíma við heilann sem er ekki að gefa frá sér nóg af gleðihormónum, serótíni.

Þeir sem hafa aftur á móti nóg af hormónunum taka til í herberginu sínu og eiga ekki í vandræðum með það. „Ef þú værir fótbrotinn og með gifs upp á nára myndir þú ekki gera ráð fyrir að manneskjan myndi taka til í herberginu,“ segir Silja Björk.

Silja Björk segist hafa tengt við myndirnar sem Nútíminn fjallaði um. „Þegar ég sá þessar myndir hugsaði ég: Ég hef svo mikið verið í þessum sporum. Allt er komið í rúst, maður er hvorki búinn að bursta tennurnar né fara í sturtu. Þá verður maður að fagna þessum litlu sigrum.“

„Það sem við erum að berjast við með átakinu #ÉgErEkkiTabú er að fólk átti sig á því að þetta er sjúkdómur. Ég fékk oft að heyra þegar ég var sem veikust að ég ætti ekki að vera svona löt. Þú myndir aldrei segja það við krabbameinssjúkling,“ segir Silja Björk.

„Þegar maður er orðinn svona þunglyndur, þá er manni bara sama. Þú getur bara fundið tilfinninguna að líða illa. Það er bara eins og það sé slökkt á öllu. Þegar þú ert kominn það langt niður að þig langar að sofna og vakna ekki aftur, hvaða máli skiptir þá hvort þú tekur til í herberginu þínu eða ekki,“ segir Silja Björk að lokum.

Auglýsing

læk

Instagram