Tíu listamenn á Sónar Reykjavík sem þú hefur aldrei heyrt í áður

Sónar Reykjavík er handan við hornið og við fengum Steinþór Helga Arnsteinsson, starfsmann hátíðarinnar, til að varpa ljósi á listamennina sem við höfum aldrei heyrt í áður.

 

1. Lone

Heitir réttu nafni Matthew Cutler og gefur út hjá hinu virta R&S plötufyrirtæki sem hefur m.a. gefið út James Blake. Spilar mjög heizaða danstónlist undir miklum áhrifum frá bæði hip-hop og 90’s rave tónlist. Kemur fram með vídjólistamanningum Konx-om-Pax og því má búast við að tónleikar hans verði konfekt fyrir bæði eyru og augu. Spilar í SonarHall á föstudagskvöldinu.

2. Sevdaliza

Tónlistarkona frá Íran sem ólst upp í Hollandi sem vakið hefur gríðarlega athygli undanfarna mánuði eftir útkomu stuttskífunnar The Suspended Kid. Er nú beðið með mikilli eftirvæntingu eftir fyrstu stóru plötunni hennar og spá margir miðlar henni miklum frama á komandi misserum. Artisti sem áðdáendur FKA-Twigs og Kelela mega alls ekki láta framhjá sér fara. Spilar í SonarComplex á föstudagskvöldinu.

3. Oneohtrix Point Never

Maðurinn á bakvið OPN er Daniel Lopatin. Orðstýr hans hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum árum, sérstaklega eftir plötuna R Plus Seven árið 2013 en í kjölfarið fór hann m.a. á tónleikaferðalag með Nine Inch Nails og Soundgarden. Í fyrra kom síðan út platan Garden of Delete og endaði hún á fjölmörgum listum yfir bestu plötur ársins. OPN mun bráðlega senda frá sér nýja plötu ásamt Antony & the Johnsons og Hudson Mohawke undir nafinu ANOHNI. Spilar í SonarHall á föstudagskvöldinu.

4. Rødhåd

Er einn af risunum í teknóheiminum og spilar reglulega á öllum stærstu klúbbum heims á borð við Berghain í Berlín og Concrete í París. Er einn af tveimur plötusnúðum sem kemur fram á Sónar Reykjavík í ár sem endaði á topp 10 yfir bestu dj-a í heimi hjá biblíu danstónlistarinnar, Resident Advisor. Hinn dj-inn er Ben UFO. Spilar í SonarLab á laugardagskvöldinu.

5. Holly Herndon

Nýtur gríðarlegra virðingar í tónlistarbransanum og þykir algjör brautryðjandi í samsetningu á mjög framúrstefnulegri nútímatónlist – sem hún er með doktorsgráðu í – og elektrópoppi. Tónlist hennar er algjörlega sér á báti og fer hún mjög frumlegar leiðir í sinni tónlistarsköpun. Síðasta plata hennar, Platform, endaði á fjölmörgum listum yfir bestu plötur síðasta árs, þ.á.m. hjá The Guardian, NME og Pitchfork. Spilar í SonarHall á föstudagskvöldinu.

6. LE1F

Rappari frá New York sem vakti gríðarlega athygli á síðasti ári með fyrstu plötu sinni Riot Boi. Er með einstakan stíl sem erfitt er að lýsa. Hefur unnið með mörgum þekktum nöfnum á borð við Sophie, Evian Christ og Dev Hynes (Blood Orange). Tónleikar Le1f eru mikið sjónarspil og má alveg búast við mörgum skrautlegum uppákomum. Spilar í SonarHall á laugardagskvöldinu.

7. The Black Madonna

Tónlistarkona og plötusnúður frá Chicago sem nýtur gríðarlegra virðingar. Þykir algjörlega framúrskarandi plötusnúður en tónlist hennar spannar allt frá diskói til teknós. Hún hefur lengi barist gegn staðalímyndum í plötusnúðaheiminum og segir að hann þurfi fleiri lesbískar konur yfir fertugt, eins og hana. Og hún stendur svo sannarlega undir öllum stóru orðunum. Spilar í SonarLab á fimmtudagskvöldinu.

8. Floating Points

Það á hálfpartinn ekki að þurfa að setja Floating Points á þennan lista. En þetta er þá í það minnsta áminning til allra sem hafa ekki kynnt sér þennan tónlistarmann að gera það ekki seinna en strax. Floating Points hefur verið undir smásjá danstónlistaráhugamanna í mörg ár enda sent frá sér fjöldan allan af frábærum klúbbahitturum. Í fyrra fóru hins vegar hjólin að snúast fyrir alvöru með útkomu plötunnar Elaenia. Gagnrýnendur gjörsamlega slefuðu yfir gripnum og Resident Advisor valdi hana bestu plötu ársins 2015. Floating Points hefur hingað til bara komið fram sem plötusnúður en í lok árs í fyrra koma hann í fyrsta sinn fram með stórri hljómsveit og kemur hann með hana til Íslands. Sannkallaður hvalreki fyrir íslensku tónlistarsenuna. Spilar í SonarClub á föstudagskvöldinu.

9. Courtesy

Dönsk stelpa af grænlenskum uppruna sem hefur verið að gera frábæra hluti í plötusnúðasenunni í Skandínavíu og víðar. Spilaði hún meðal annars á síðustu Hróarskelduhátíð. Spilar frekar hart house og teknó með áherslu á nýja tónlist. Spilar í SonarPub á föstudagskvöldinu.

10. Mumdance

Eitt af stóru nöfnunum í grime-senunni í Bretlandi en þar hefur hann til dæmis unnið með rapparanum Novelist. Gerir einnig framúrstefnulegt teknó. Fer fyrir algjörlega nýrri senu af breskri danstónlist og það verður vafalaust mjög forvitnilegt að sjá kappanna spila í Kaldalón-salnum í Hörpu. Spilar í SonarComplex á föstudagskvöldinu.

Auglýsing

læk

Instagram