Trendsetterinn biðst afsökunar — hættir að blogga

„Kannski gekk grínið of langt með tímanum, hætti að vera fyndið og varð í staðinn særandi. Höfundi Trendsettersins finnst það miður og vill hann biðja alla þá einstaklinga sem fannst skrif hans vera særandi innilegar afsökunar.“

Þetta segir huldubloggarinn Trendsetterinn í nýrri færslu sem er svanasöngur bloggsíðunnar.

Trendsetterinn hefur vakið talsverða athygli undanfarna daga, eins og Nútíminn hefur greint frá. Bloggið er einskonar skopstæling á tískubloggum, sem eru afar vinsæl í dag, og í viðtali við Fréttablaðið á laugardag sagðist Trendsetterinn vera lítið, viðkvæmt blóm sem ætlar sér stóra hluti í blogginu.

Nokkrir af vinsælustu tískubloggurum landsins blogga á vefsíðunni Trendnet. Elísabet Gunnarsdóttir, eigandi Trendnets, sagðist í viðtali við Nútímann í morgun hafa tekið eftir óskemmtilegum athugasemdum á samfélagsmiðlum um sig og meðbloggara sína eftir að Trendsetterinn hóf að blogga:

Ég brosti að lestrinum fyrst um sinn en það runnu á mig tvær grímur þegar ég tók eftir því að verið væri að taka einstaka bloggara fyrir og gera grín. Nafnlaust. Það er hvorki fyndið né fallegt. Og lætur þessa síðu missa marks – á köflum er hægt að flokka skrif nafnlausa bloggarans sem neteinelti og það er eitthvað sem við sem samfélag eigum ekki að vera að hampa.

Í síðustu færslu Trendsettersins kemur fram að karakterinn búi í höfðinu á 24 ára gamalli venjulegri íslenskri stelpu.

„Trendsetterinn var hugsaður sem ákveðin ádeila á íslenskt samfélag og til þess eins að skemmta nokkrum vinum og kunningjum. Hann á jafn mikið sameiginlegt með stelpunni sem hýsir hann og Crocks skór eiga með tískupöllunum í París,“ skrifar hún.

Hún segir að sér hafi borist margir tölvupóstar eftir að Trendsetterinn sló óvart í gegn hjá þjóðinni:

„Flest þessara emaila hafa verið á jákvæðu nótunum en honum hefur líka borist mörg bréf þar sem hann er gagngrýndur fyrir skrif sín og hann sagður vera að „drulla yfir ákveðnar persónur nafnlaust“ og jafnvel leggja þær í einelti. Trendsetternum sjálfum er drullusama.

Hann elskar að baða sig í athyglinni og myndi vilja halda áfram þessari vitleysu til eilífðar nóns. En hins vegar finnst höfundi Trendsettersins umræðan komin á hálan ís. Bloggið var alls ekki búið til í þeim tilgangi að gera lítið úr einhverjum ákveðnum einstaklingum til þess eins að koma höfundinum sjálfum á framfæri.

[…] Höfundur Trendsettersins ætlar að draga sig í hlé og hverfa aftur inn í fjöldann, enda eru hans 15 mínútur af frægð löngu liðnar hjá.“

Smelltu hér til að lesa afsökunarbeiðinina.

Fylgdu Nútímanum á Facebook og þú missir ekki af einni einustu frétt.

Auglýsing

læk

Instagram