Tvær konur handteknar fyrir að gabba neyðarlínuna: Sögðust hafa séð fólk fara í sjóinn við Sæbraut

Tvær konur á fertugsaldri voru handteknar í kvöld fyrir að gabba neyðarlínuna. Þær höfði tilkynnt um að fólk hafði farið í sjóinn við Sæbraut en enginn fótur reyndist vera fyrir tilkynningunni. Um gabb var að ræða. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.

„Fyrr í kvöld barst tilkynning um að fólk hafi farið í sjóinn við Sæbraut gegnt Kirkjusandi,“ segir í tilkynningunni.

Lögregla, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og sjóflokkar björgunarsveita voru kölluð út með hæsta forgangi, í ljósi alvarleika tilkynningarinnar.

Eftir að enginn fannst var reynt að ná í þann sem hringdi inn. „Eftir það kom upp sá grunur að um gabb væri að ræða,“ segir í tilkynningunni. „Lögreglan hefur handtekið tvær konur á fertugsaldri vegna málsins og eru þær vistaðar í fangaklefa og bíða yfirheyrslu.“

Auglýsing

læk

Instagram