Ómissandi á Ítalíu: Þrjár borgir, þrír veitingastaðir

Auglýsing

Það er víst af nógu að taka þegar góðir veitingastaðir á Ítalíu eru annars vegar. Hérna höfum við tekið sama þrjá góða veitingastaði í þremur frábærum matarborgum, þ.e. Mílanó, Flórens og Róm. Buon appetito!

 

Mílanó


Sapori Solari – Cocktail Bistrot

Sapori Solari er á nokkrum stöðum í Mílanó en það er vert að mæla sérstaklega með Cocktail Bistrot-staðnum en hann hefur notið mikilla vinsælda undanfarið. Hérna er alvöru ítölsk menning í hávegum höfð en þó með smátvisti.

Það er vel þess virði að gera sér ferð á staðinn og fá sér nokkra drykki en kokteilarnir þykja með eindæmum góðir, oft svolítið öðruvísi og tilraunarkenndir.

Hingað er alveg tilvalið að koma í aperitivo-stund.

Vefsíða: saporisolari.com

Joia

Auglýsing

Hér er á ferðinni einstakur staður þar sem litríkt grænkerafæði er í forgrunni en um 80% réttanna á matseðli eru vegan og glúteinlausir.

Joia hlaut græna stjörnu frá Michelin sem er viðurkenning sem sem Michelin kynnti árið 2020 til að verð­launa veitinga­staði sem hafa lagt á­herslu á sjálfbærni. Á Joia er mikið lagt upp úr því að draga úr matarsóun og því lögð áhersla á að nýta allt hráefni til hins ýtrasta, útkoman er oft áhugaverð og alltaf spennandi. Yfirkokkurinn, hinn virti Pietro Leeman, segir matinn á Joia vera góðan fyrir umhverfið og auðvitað líka þá sem fá tækifæri til að gæða sér á honum.

Þjónustan á Joia þykir með eindæmum góð og andrúmsloftið á staðnum hlýlegt og heimilislegt.

Da Zero

„Pítsa er ekki bara pítsa,“ segir á vefsíðu Da Zera. Hérna eru Napólípítsur í aðalhlutverki þar er mesta áherslan lögð á að nota besta hráefnið sem völ er á. Hér eru pítsurnar eldbakaðar í viðarofni og eru hafðar fremur þunnar og stökkar. Eins og áður sagði er mikið lagt upp úr því að notast við vel valið hráefni, helst úr nærumhverfinu, og eru kokkarnir í beinu sambandi við marga af þeim framleiðendum og bændum sem skaffa vörurnar. Staðurinn sjálfur er nútímalegur, látlaus og notalegur, hér er ekkert verið að flækja hlutina.

Vefsíða: cominciadazero.com

Róm


Marzapane

Skemmtilegur staður, stofnaður 2013. Eldhúsið er rekið af kokkunum Guglielmo Chiarapini og Francesco Capuzzo sem báðir lærðu og byrjuðu sinn feril í Frakklandi, hér mætast því franskir og ítalskir straumar í matargerðinni. Hjá Marzapane er hefðum og leikgleði teflt saman með það að markmiði að draga það besta fram úr hráefninu hverju sinni.

Eins og svo oft með ítölsk veitingahús þá er megináherslan hjá Marzapane á að vinna með gæðahráefni og þá sér í lagi frá litlum framleiðendum úr nærumhverfinu. Matseðillinn breytist því eftir árstíðum sem gerir heimsókn á Marzapane alltaf spennandi.

Drink Kong

Þessi nýstárlegi og skemmtilegi bar var stofnaður af margverðlaunaða ítalska barþjóninum Patrick Pistolesi árið 2019. Staðurinn er því fremur nýr en hefur náð miklum vinsældum á skömmum tíma. Rýmið er einstakt en þar eru neonljós, trópískar plöntur og dökk litapalletta í aðalhlutverki. Hingað kemur fólk ekki til að panta sér bara klassískan gin og tónik heldur velja gestir drykki út frá tilfinningum og ákveðnum bragðtegundum með aðstoð barþjónanna. Drink Kong er afar skemmtilegur staður og óhætt að segja að hann sé allt öðruvísi en hinn hefðbundni bar.

Écru

Écru er vegan og hráfæðistaður sem var settur á laggirnar árið 2015. Matseðillinn er árstíðabundinn en hér fæst alla jafna gott úrval „savory“-rétta, svo sem núðlur, sushi, ostar og carpaccio, auðvitað allt vegan, einnig sætindi og nasl. Á drykkjarseðli eru svo m.a. alls kyns þeytingar, jurtamjólk og vel valið úrval náttúruvína. Á síbreytilegum matseðli eru alltaf spennandi réttir gerðir úr ferskasta lífræna hráefni sem völ er á hverju sinni. Hér er bragðgóður og meinhollur matur í forgrunni.

Vefsíða: ecrurawfood.it

Flórens


Manzo

Staður sem vert er að heimsækja fyrir þá sem kjósa hágæða steikur, hamborgara og pasta að hætti Toskana-búa. Kjötið kemur frá bæjum þar sem nautgripirnir eru fóðraðir með göfugu hráefni og meðhöndlað á heilbrigðan máta með tilliti til náttúrunnar. Brauð hamborgaranna er heimabakað með sérvöldu hveiti og allar sósur og annað meðlæti lífrænt. Einnig er boðið upp á pasta, grænmetisrétti, heimagerða eftirrétti og fjölbreytt úrval af drykkjum. Staðurinn hefur fengið góða dóma enda um ósvikinn mat að ræða þar sem ferskleiki og ástríða fyrir matargerð skín í gegn.

I Ghibellini

Fjölskyldurekið fyrirtæki frá 1985, þar sem flórentínskar hefðir og uppskriftir frá Toskana spila saman. Staðurinn var upphaflega rekinn sem pítsu- og pastastaður en upp úr 1990 breyttust áherslurnar og í dag er lagt upp með fjölbreyttum hefðbundnum réttum frá Toskanahéraði þar sem allt hráefni kemur úr nærumhverfinu. I Ghibellini er staðsettur á sögufrægum slóðum Flórens þar sem matur og umhverfi tvinnast saman á einstakan hátt eins og sönnum Ítölum sæmir.

Boðið er upp á allt það helsta í ítalskri matargerð auk ýmissa drykkjarfanga. Frá apríl til október er hægt að sitja úti á verönd, horfa yfir San Pier Maggiore-torg og njóta veðurblíðunnar.

Mercato Centrale Firenze

– matarmarkaður með tvisti

Ef Flórens væri tortellini væri Marceto Centrale fyllingin – rjóminn á skúffukökunni, glassúrinn á snúðinum, sósan á sunnudagssteikinni. Markaðurinn er miðpunktur Flórensborgar þar sem ferskvara, veitingastaðir og menning sameinast undir einu þaki.

Matarmenning Ítalíubúa er víðfræg enda fer hún eftir ströngum reglugerðum og þarf hráefnið helst að vera úr næsta nágrenni og þar gefur markaðurinn ekkert eftir. Í Mercato Centrale selur matargerðarfólk frá Toskana sína afurð þar sem gæði og hefðir eru í forgrunni.

Byggingin var reist upp úr miðri 19. öld og er andrúmsloftið eftir því; einstök bygging með sögu og sál. Tilvalinn staður til þess að fá sér hádegismat og kaupa ítalska úrvalsmatvöru.

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram