Vigdís Hauksdóttir hættir á þingi: „Ég er stolt af verkum mínum á Alþingi“

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, hyggst ekki gefa á kost á sér fyrir næstu Alþingiskosningar. Hún lætur því af þingmennsku fyrir Framsóknarflokkinn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vigdísi.

Vigdís settist á þing árið 2009 en hafði verið varamaður Framsóknar frá 1996 til 2003.

„Í samráði við mína nánustu hef ég ákveðið að sækjast ekki eftir oddvitasæti Framsóknarflokksins í Reykjavík og læt ég þar með af þingmennsku fyrir flokkinn eftir næstu alþingiskosningar,“ segir hún.

Hætta skal hverjum leik þá hæst hann stendur – ég er stolt af verkum mínum á Alþingi – þar sem ég hef lagt allt undir fyrir land og þjóð.

Vigdís nefnir í þessu samhengi Icesave, baráttuna gegn ESB-umsókninni, aðförina að stjórnarskránni og baráttuna við kröfuhafana sem leiddu loks til skuldaniðurfellingar fyrir heimilin í landinu.

„Nú er framtíðin björt fyrir land og þjóð – það var ekki svo þegar ég hóf störf sem þingmaður,“ segir hún.

„Á árabilinu 2009 – 2013 var þjóðinni sundrað með sífelldum átakamálum í stað samheldni. Síðasta stóra verkefnið mitt áður en ég læt af þingmennsku er að leiða fram staðreyndir um afhendingu tveggja stóru bankanna til kröfuhafanna og upplýsa um vinnubrögð kringum Landsbankann og Icesave. Öll gögn liggja nú fyrir og verður upplýst um þessi mál í sumarlok.“

Vigdís segir að lífið hafi alltaf verið sér gott og fært sér nýjar og spennandi áskoranir, tækifæri og úrlausnarefni. „Þegar ég hef ákveðið breyta um vettvang og trúi ég að svo verði einnig nú,“ segir hún og þakkar framsóknarmönnum í Reykjavík og kjósendum mínum í Reykjavíkurkjördæmi suður fyrir stuðninginn.

„Einnig þakka ég mikinn og áþreifanlegan stuðning í starfi mínu frá fólki hvaðanæva af landinu og Íslendingum búsettum erlendis langt, langt út fyrir flokksraðir,“ segir Vigdís.

„Sá stuðningur er ómetanlegur og hefur drifið mig áfram í baráttunni fyrir land og þjóð. Megi Ísland verða frjálst, sjálfstætt og fullvalda ríki um ókomin ár.“

Auglýsing

læk

Instagram