Víkingur segir barnaverndaryfirvöld hafa brugðist syni sínum: „Hvar endar þessi martröð?”

Í dag var felld niður kæra á hendur leikaranum Víkingi Kristjánssyni sem byggði á gruni um að hann hafi misnotað sjö ára son sinn kynferðislega. Víkingur segir í grein sem birtist á vef Kvennablaðsins í dag að þrátt fyrir að niðurstaðan ætti að boða gleðidag og marka endalok á þeim „gegndarlausu árásum” sem dunið hafi á honum og fjölskyldu hans frá upphafi ársins 2017 sé hann ekki bjartsýnn að sú verði raunin.

Víkingur segir í greininni að barnaverndaryfirvöld í Reykjavík hafi brugðist syni hans. Reynslan hafi nú kennt honum að vera viðbúinn því versta.

„Mér hefur verið sagt og það nokkrum sinnum undanfarið ár, af fólki sem vill vel, að reiðin gagnist mér ekkert. Ég veit að þetta er rétt og hef því reynt að vanda mig við að taka þessum ljótu árásum af stillingu og yfirvegun,” segir Víkingur.

Hann segir að það hafi ekki verið auðvelt að halda sig til hlés og bíða. Það væri lygi ef að hann myndi segja að hann væri ekki reiður.

„Að sitja í skýrslutökum hjá rannsóknarlögreglu og sverja af sér barnaníð er niðurlægjandi reynsla sem ég óska engri saklausri manneskju. Og ég er sannarlega saklaus af þessum ásökunum.”

Víkingur segir þó að það alvarlegasta við málið sé hversu illa barnaverndaryfirvöld hjá Reykjarvíkurborg hafi brugðist syni hans.

„Barnaverndarnefnd tók eingöngu tillit til einstakra atriða, auk þess sem starfsmaður nefndarinnar leyfði sér að fara út fyrir verkramma sinn, beygja reglur á vafasaman hátt, og verða um leið þátttakandi í tilraunum til að skaða til frambúðar samband sonar míns við mig, systkini sín og stjúpmóður.”

Sakaður um kynferðislega misnotkun

Í upphafi ársins 2017 sakaði barnsmóður Víkings unnustu hans um gróft ofbeldi. Þegar þær ásakanir reyndust ekki sannar var Víkingur sakaður um kynferðislega misnotkun með nafnlausri innhringingu. Skýrslur í málinu sýndu að sú hringing barst frá móður drengsins.

Þann 9. júní sama ár tilkynnti Rannsóknarlögreglan Víkingi að lögð hefði verið fram kæra sem byggði á grunsemdum um kynferðislega misnotkun.

„Ég skildi ekkert. Var gjörsamlega eins og sleginn niður í götuna. Hvernig gat það mögulega verið niðurstaðan að kæra væri lögð fram? Ég er fullkomlega saklaus. Hafði fagfólk Barnahúss, sem ég var fullviss um að kæmust til botns í málinu og hreinsuðu mig af ásökunum, loks tekið könnunarviðtalið og niðurstaðan verið þessi? Hvernig gat þetta gerst?”

Móðirin viðstödd í viðtali við drenginn

Víkingur skrifaði bréf til Barnaverndarnefndar þar sem hann sakaði stofnunina um að hafa brugðist hlutverki sínu. Á þessum tímapunkti hafði sonurinn ekki fengið að hitta föður sinn og systkini sín í um hálft ár.

Hann fékk í kjölfarið símtal frá starfskonu Barnaverndar sem tjáði honum að svona væri ferlið.

„Hún lét hins vegar, af einhverjum ástæðum, alveg vera að segja mér að mál sonar míns fór ekki hina viðurkenndu faglegu leið, ferli þess var nokkuð óvenjulegt og hún sjálf bar stærstu ábyrgð á því að kæran á hendur mér var lögð fram,” skrifar Víkingur.

Víkingur segir að móðirin hafi verið viðstödd og tekið þátt í viðtali sem Barnavernd tók við drenginn.

„Sagði hún að strákurinn hefði tjáð henni að hann hefði ekki þorað að nefna ákveðin atriði í viðtali Barnahúss. Móðirin mætti í kjölfarið sjálf með son minn á skrifstofu Barnaverndar. Þar átti áðurnefnd starfskona Barnaverndar, ásamt móðurinni, samtal við hann, og í sameiningu drógu þær upp úr honum að ég hafi verið að snerta á honum kynfærin. Að samtalinu loknu tók svo starfskonan ákvörðun um að leggja fram kæru,” segir hann.

Öllu hlutleysi sem fagfólk Barnahúss byggir á, öllum takmörkunum á að barnið sé matað eða leitt í ákveðnar áttir af málsaðila var hér hent í burtu eins og ekkert væri.

Hefur ekki séð son sinn í yfir ár

Víkingur segir að rannsóknin hafi tekið á hann sjálfan og fjölskyldu hans. Stjúpdóttir hans var til að mynda fengin í viðtal vegna grunsemda um að hann væri kynferðisbrotamaður. Viðtalið leiddi ekkert í ljós sem studdi þær grunsemdir.

Erfitt hafi verið að útskýra aðstæður fyrir stjúpsystur stráksins sem er nú þriggja ára. Hún sé enn að spyrja hvenær hann komi aftur eftir rúmlega eins árs fjarveru. Hann segir þó það versta vera biðina og að hafa ekki fengið að hitta strákinn sinn.

„Hvað gengur á í lífi hans? Hvað er honum sagt um þetta skyndilega gap í tilverunni? Og hvar endar þessi martröð, sem komin er svo fáranlega langt í kerfinu að maður þorir ekki að ímynda sér hvar eða hvenær lyktir verða.”

Hann segir að staðreyndin sé sú að syni hans hafi verið rænt frá honum af aðilum sem svífast einskis í aðgerðum sínum og að hann búi í samfélagi þar sem engin leið er að treysta á að yfirvöld komi honum til hjálpar.

Með skrifunum vonast hann til að hreinsa mannorð sitt og leggja lóð sín á vogarskálarnar í þeirri von að ekkert foreldri þurfi að upplifa það sama og hann í samskiptum sínum við barnaverndaryfirvöld. Á næstu dögum muni hann fara yfir næstu skref með lögfræðingi sínum.

Pistil Víkings má lesa í heild sinni á vef Kvennablaðsins með því að smella hér.

Auglýsing

læk

Instagram