Vilja að Bjarni velji ráðherra frá Reykjavík

Sjálfstæðismenn halda áfram að skora á Bjarna. Nú er það Vörður, fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Fyrr í dag voru það sjálfstæðismenn í Vestmannaeyjum en Heimdallur svaraði þeim.

Stjórn Varðar í skorar á Bjarna Benediktsson að tilnefna einn af þingmönnum Reykjavíkurkjördæmanna tveggja til að gegna embætti innanríkisráðherra.

Mikilvægt er að afsögn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi Suður, leiði ekki til þess að vægi Reykjavíkurkjördæmanna í ríkisstjórn verði minna en ella. Í dag kemur einungis einn af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins frá Reykjavík, sjálfu höfuðvígi flokksins. Þá kemur enginn af ráðherrum flokksins frá Reykjavíkurkjördæmi Suður, sem ásamt Reykjavíkurkjördæmi Norður er næststærsta kjördæmi landsins. Það er því eðlilegt að næsti ráðherra Sjálfstæðisflokksins komi frá höfuðborginni.

Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, telur aftur á móti að velja eigi hæfasta einstaklinginn í embætti innanríkisráðherra:

„Því er Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hvattur til að velja hæfasta einstaklinginn í embætti innanríkisráðherra án tillits til kyns, búsetu eða annarra þátta sem hafa engin áhrif á hæfi fólks. Einstaklingar eiga að vera metnir að eigin verðleikum, en ekki á grundvelli eiginleika sem þeir hafa enga stjórn á.“

Bjarni Benediktsson segir að eftirmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur verði ekki skipaður fyrr en eftir næstu helgi. Líklegt þykir að Einar K. Guðfinnsson verði skipaður innanríkisráðherra.

Auglýsing

læk

Instagram