Frímann Gunnarsson frumsýnir viðtalsþátt við Casper Christiansen: „Danskur hreimur ekki beinlínis fallegur“

Fjölmiðlamaðurinn Frímann Gunnarsson hefur birt einn sjónvarpsþátt á dag á Facebook-síðu sinni í desember.

Rúsínan í pylsuendanum er viðtalsþáttur sem hann birtir í dag, aðfangadag, en hann gerði Frímann í samstarfi við danska leikarann Casper Christiansen. Hér má sjá myndbandið. 

Copenhagen Nights with Frimann Gunnarsson from Ragnar Hansson on Vimeo.

Nútíminn spurði Frímann hvernig hafi verið að hitta Casper Christiansen og ræða við hann í sjónvarpi.

„Þetta er afskaplega amatörleg spurning. Týpísk spurning frá ungum óreyndum blaðamanni. Ég byrja því  að skjóta tveimur spurningum til baka: A) Hvað ertu gömul, B) Ertu lærð í fjölmiðlafræðum?  (Vinsamlegast svaraðu mér með tölvupósti á lalliraggi03, það er netfang ungs vinar míns sem hjálpar mér með tölvusamskipti, hann sendi til dæmis að þetta bréf sem ég handskrifaði fyrst og prófarkarlas það svo eftir að hann vélritaði það upp, þurfti að leiðrétta ófáar innsláttarvillur hjá honum greyinu),“ segir Frímann í svari til Nútímans.

Já, það er ekkert annað!

„En sem sagt svo ég snúi mér að „spennandi“ spurningunni þinni, þá er svarið við henni:  Það var alveg ágætt, hann er samt dálítið glannalegur fyrir minn smekk.  Mér fannst mjög erfitt þegar hann sýndi mér húðflúrin sem hann er með víðs vegar á líkamanum, alveg skelfileg tíska sem t.d. glæpamenn nota gjarnan.  Svo var líka erfitt að skilja enskuna hans, danskur hreimur er nú ekki beinlínis fallegur,“ segir Frímann.

Verður framhald á þáttunum?

„Já, alveg áreiðanlega.  Ég hef reyndar ekki heyrt í þessu danska framleiðslufyrirtæki síðan, en ég held að það hafi verið einhver misskilningur með símanúmerið mitt, það hefur eitthvað misfarist hjá þeim að taka það niður (gæti verið ruglingur með svæðisnúmerið eða eitthvað). Ég er búinn að reyna að ná í þau, hef skilið eftir fjölda skilaboða en það hefur eitthvað dregist að þau hafi svarað… það kemur ábyggilega bara á næstu dögum.  Það verður auðvitað að vera þolinmóður í svona millilandasamskiptum, boðleiðirnar eru ansi langar og svo hef ég heyrt að þessi fýr, Casper, sé líka ansi alvarlega lesblindur… sem útskýrir nú margt,“ segir Frímann.

Auglýsing

læk

Instagram