Örskýring: Af hverju eru allir að tala um Dorrit?

Um hvað snýst málið?

Dorrit Moussaieff forsetafrú hefur tengst að minnsta kosti tveimur aflandsfélögum. Þetta kemur fram í umfjöllun Reykjavík Media ásamt því að greint er frá málinu á vef Guardian í Bretlandi og þýska dagblaðsins Sueddeutsche Zeitung.

Hvað er búið að gerast?

Fréttirnar eru byggðar á gögnum úr tveimur lekum: Swiss Leaks og Panamaskjölunum.

Á vef Reykjavík Media kemur fram að Dorrit hafi átt hlut í félaginu Jaywick Properties Inc. á Bresku jómfrúareyjunum og að hún hafi tengst félaginu Moussaieff Sharon Trust. Þá kemur fram að forsetafrúin hafi tengst að minnsta kosti fimm bankareikningum í Sviss í gegnum fjölskyldu sína.

Kjarninn og Reykjavík Grapevine greindu frá því á dögunum að félag í eigu fjölskyldu Dorritar hafi átt félagið Lasca Finance Limited sem var skráð á Bresku Jómfrúareyjunum, frá árinu 1999 til ársins 2005. Upplýsingar um félagið er að finna í Panamaskjölunum.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hafnaði öllum tengingum við aflandsfélög í viðtali við bandarísku sjónvarpsstöðina CNN í lok apríl. Ólafur Ragnar var spurður hvort hann ætti einhverja aflandsreikninga, hvort eiginkona hans ætti einhverja aflandsreikninga eða hvort eitthvað ætti eftir að koma í ljós um hann eða hans fjölskyldu.

Svar Ólafs er orðið frægt: „Nei, nei, nei, nei. Það verður ekki.“

Hvað gerist næst?

Örnólfur Thorsson forsetaritari sagði í skriflegu svari til Suddeutsche Zeitung að forsetinn hefði enga vitneskju um félögin og að hann hefði aldrei heyrt um þau. Þá sagði Örnólfur að forsetinn hefði aldrei haft upplýsingar um aðra meðlimi Moussaieff fjölskyldunnar.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Instagram