Örskýring: Breski íhaldsflokkurinn tapar meirihluta sínum en verður áfram í ríkisstjórn

Um hvað snýst málið?

Íhaldsflokkurinn tapaði meirihluta sínum á breska þinginu í kosningum sem fóru fram í gær en verður áfram í ríkisstjórn.

Hvað er búið að gerast?

Breska þjóðin kaus um útgöngu landsins úr Evrópusambandinu síðasta sumar. Þau sem vildu ganga úr ESB höfðu betur með 51,9% atkvæða. Nei sögðu 48,1% kjósenda.

Þegar niðurstöðurnar lágu fyrir sagði David Cameron, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins, af sér og Theresa May, flokkssystir hans, tók við. Þau voru bæði mótfallin útgöngu ESB áður en niðurstöðurnar lágu fyrir en núna segist May hlynnt henni þar sem það sé vilji þjóðarinnar.

May kom þjóðinni á óvart í lok apríl og tilkynnti að kosið yrði til þings í landinu 8. júní en áður höfðu þingkosningar verið fyrirhugaðar 2020. Þetta sagðist hún gera til þess að styrkja umboð hennar til að semja um útgöngu Breta úr ESB.

Þingkosningar fóru fram í Bretlandi í gær. Þrátt fyrir að Íhaldsflokkurinn hafi fengið flest þingsæti, eða 318, tapaði flokkurinn meirihluta sínum. 326 þingsæti þarf til að hafa hreinan meirihluta. Verkamannaflokkurinn kemur næstur með 261 þingsæti.

May gekk á fund Elísabetar Bretadrottningar fyrir hádegi í dag og óskaði eftir umboði til að mynda nýja ríkisstjórn.

Hvað gerist næst?

Theresea May verður áfram forsætisráðherra Bretlands í stjórnarsamstarfi Íhaldsflokksins og Frjálslynda sambandsflokksins.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Instagram