Örskýring: Deilurnar á Austur

Um hvað snýst málið?

Deilur standa yfir milli eigenda 101 Austurstrætis, rekstrarfélags Austurs. Ásgeir Kolbeinsson og Styrmir Þór Bragason eiga helming í félaginu á móti Kamran Keivanlou og viðskiptafélaga hans frá Íran.

Hvað er búið að gerast?

Kamran Keivanlou og viðskiptafélagi hans sömdu við Ásgeir og Styrmi um að kaupa staðinn í tveimur áföngum. Aðeins helmingur hefur verið greiddur. Ásgeir og Styrmir hafa stefnt Kamran og félagi hans, Alfacom Trading, fyrir dóm til að greiða að fullu kaupverðið.

Kamran og félagi hans létu loka reikningum 101 Austurstrætis og posum á Austur þar sem þeir töldu Ásgeir ekki hafa staðið við samkomulag um sameiginlega prókúru.

Ásgeir fékk þá annað einkahlutafélag, Austurstræti 5 ehf, til þess að taka við greiðslum og starfrækja posa til að forðast lokun staðarins. Sýslumaðurinn í Reykjavík veitti forsvarsmönnum Austurs viðvörun í síðustu viku, þar sem félagið Austurstræti 5 hefur ekki tilskylin leyfi fyrir rekstri skemmtistaðarins.

Ásgeir hefur kært Kamran fyrir hótanir. Hljóðupptaka af meintum hótunum hefur verið afhent lögreglu.

Kamran hefur kært Ásgeir og fjármálastjóra Austurs til lögreglu og sérstaks saksóknara fyrir fjárdrátt og önnur meint fjármálamisferli.

Hvað gerist næst? 

Mál Ásgeirs og Styrmis gegn einkahlutafélagi Kamrans verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur á miðvikudaginn. Þá eru kærur til skoðunar hjá lögreglu.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Instagram