Örskýring: Greiðslufyrirkomulag Spotify

Um hvað snýst málið?

Útgefandinn Haraldur Leví Gunnarsson hjá Record Records birti grein á Nútímanum um tekjur tónlistarmanna fyrir spilun á Spotify. Haraldur bar tekjurnar saman við tekjur af plötusölu:

Þú þarft að hlusta 173 sinnum á plötuna svo að hljómsveitin fái sömu tekjur og ef þú ferð og kaupir geisladiskinn út í búð. Það er fáránlegt!

Hvað er búið að gerast?

Í desember á síðast ári opnaði Spotify sérstaka síðu þar sem greiðslufyrirkomulag þjónustunnar er útskýrt. 70 prósent af tekjum tónlistarveitunnar renna til listamanna. Fyrirtækið áætlar að hver spilun skili listamanni á milli 0,006 og 0,0084 Bandaríkjadala í höfundaréttargreiðslur.

Spotify greiðir ekki fasta upphæð fyrir hverja spilun. Heildarupphæð höfundaréttargreiðslna hverju sinni er skipt á milli rétthafa eftir hlutfalli þeirra af allri spilun. Höfundaréttargreiðslur tónlistarmanns gætu því verið misháar á milli ára þó að lög listamannsins væru spiluð jafn oft.

Sem dæmi þá hefur smellurinn Color Decay með Júníusi Meyvant verið spilaður 101.098 sinnum á Spotify. Tekjur hans af laginu eru því á bilinu 75 til 106 þúsund krónur.

Hvað gerist næst?

Það er ekki víst. Tónlistarmenn hafa gagnrýnt greiðslufyrirkomulag Spotify. Poppstjarnan Taylor Swift setti til að mynda ekki nýjustu plötuna sína á Spotify. Þá lét hún fjarlægja allar plötur sem hún hefur gefið út af veitunni.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Instagram