Örskýring: Ha? Af hverju er búið að banna mynd af Birgittu Jónsdóttur á Facebook?

Um hvað snýst málið?

Ljósmyndarinn Ásgeir Ásgeirsson, eða Geiri X, mun fara fram á greiðslu fjárhæðar frá 235 einstaklingum sem birtu mynd hans af þeim Birgittu Jónsdóttur, formanni Pírata og Sigurþóri Hallbjörnssyni, eða ljósmyndaranum Spessa, í leyfisleysi.

Tekið var skjáskot af deilingum fólksins.

Hvað er búið að gerast?

Myndin var tekin á útifundi árið 2014. Ásgeir segir myndina vera uppstillta, hann hafi beðið þau um að sýna sér löngutöng.

Pólitískir andstæðingar Birgittu, sem vilja koma á hana höggi, hafa dreift myndinni og velta margir fram þeirri spurningu hvort þjóðin vilji hana sem forsætisráðherra.

Píratar mældust með mest fylgi í könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands en niðurstöðurnar voru birtar 21. október.

Ásgeir greindi frá málinu á Facebook-síðu sinni. Sagði hann að þjófnaður væri alltaf þjófnaður þó að um ljósmyndi væri að ræða. Vilji fólk „tapa hundruðum þúsunda og búa til botnlausa vinnu fyrir lögmenn“ sé því velkomið að gera það, sagði Ásgeir einnig og bætti við að hann muni ekki bakka.

Facebook hefur bannað notkun á myndinni. Ásgeir segir að vel hafi gengið að ná fram banni að þessu sinni þar sem um mörg tilfelli hafi verið að ræða. Hann heldur því fram að myndin hafi verið misnotuð, höfundarréttur brotinn sem og sæmdarréttur.

Verið er að ganga frá kröfum á hendur fólkinu sem dreifði myndinni og getur sú krafa með kostnaði numið um 290 þúsund krónum, samkvæmt Ásgeiri.

Hvað gerist næst?

Verði þau sem fá kröfu frá Ásgeiri ekki við henni mun hann fara með málið fyrir dómstóla.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Instagram