Örskýring: Mun Úkraína koma í veg fyrir að Rússland taki þátt í Eurovision í ár?

Um hvað snýst málið?

Rússneska söngkonan Julia Samylova, flytjandi framlags Rússlands í Eurovision í ár, fær ekki að koma til Úkraínu næstu þrjú árin.

Keppnin verður haldin í höfuðborg landsins, Kænugarði, í maí.

Hvað er búið að gerast?

Frá og með árinu 2014 hafa yfirvöld í Rússlandi litið svo á að Krímskagi sé hluti af Rússlandi, ekki Úkraínu.

Samylova fór til Krímskaga árið 2015. Úkraína viðurkennir ekki að Krímskagi sé hluti af Rússlandi og líta stjórnvöld þar því svo á að allir sem ferðast þangað verði að fara í gegnum vegabréfaeftirlit í Úkraínu.

Það gerði Samylova aftur á móti ekki og verður því, samkvæmt lögum í Úkraínu, að handtaka hana um leið og hún kemur til landsins.

EBU, Samband Evrópskra sjónvarp- og útvarpsstöðva og stofnandi Eurovision, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins. Þar segir að sambandið virði lög Úkraínu en sé jafnframt afar miður sín vegna ákvörðunarinnar þar sem hún sé gegn anda keppninnar.

Hvað gerist næst?

Sambandið mun halda áfram viðræðum við yfirvöld í Úkraínu í von um að söngkonan fái að koma til landsins og taka þátt í keppninni.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Instagram