7 ráð til að bæta einbeitinguna hjá yngstu kynslóðinni. Og þau virka líka vel á fullorðna

Ég á sífellt erfiðara með að einbeita mér. Þegar ég ætla að gera eitthvað eitt (lesa póstinn, borga reikninga, horfa á fréttirnar), er hugurinn svo fljótur annað. Ég get vel ímyndað mér að þetta herji á fleiri og ekki síður krakkana okkar. Svo hér eru nokkrar hugmyndir til hjálpar einbeitingu þeirra.

#1 Gerðu ráð fyrir verkefnum sem krefjast einbeitingar

Börnum líður vel þegar þau vita til hvers er ætlast af þeim. Þau eru líklegri til þess að sinna verkefnum sem eru vel skilgreind og í föstum skorðum. Ef vinna við slík verkefni kemst upp í vana verður allt auðveldara í framtíðinni. Eða í það minnsta sumt. Það þarf að flexa einbeitinguna eins og hvern annan vöðva.

#2 Næði og ró

Tryggðu að börn eigi hljóðlátan og snyrtilegan stað til þess að sinna verkefnum sem krefjast einbeitingar. Stað þar sem áreiti er í lágmarki og sem minnstar líkur á truflun. Þetta þýðir líka að þar er slökkt á skjám sem freistað gætu athyglinnar. Og að aðrir á heimilinu virði vinnu þeirra sem eru að einbeita sér.

#3 Þú ert fyrirmynd

Það er ekki sjálfsagt að barn viti hvernig „einbeiting“ lítur út. Veldu þér eitthvað verkefni og sýndu barninu hvernig þú einbeitir þér að því – og útskýrðu hvernig vilt ekki láta trufla þig á meðan. Verkefnið getur t.d. verið að skrifa eitthvað, lesa bókarkafla, elda ákveðinn rétt, setja saman IKEA-húsgagn eða Legó … bara hvað sem reynir á heilahvelin í þér og þú klárar alveg áður en þú snýrð þér að öðru. Það getur verið mjög snúið að klára, margir þurfa að æfa sig í því.

#4 Markmið og minni skref

Hjálpaðu barninu að setja sér markmið. Það hvetur það til þess að brjóta verkefnin betur niður og ákveða hvert væri gaman að stefna.

#5 Hrósaðu árangri

Það má vel vera að þeim takist ekkert vel upp í fyrstu – það er auðvelt að missa fókusinn. Ef þú sérð að þau hafa verið að einbeita sér þá hrósaðu þeim fyrir það.

#6 Útrás á undan

Rannsóknir sýna að ef börn hafa góðan tíma til þess að slaka á, hreyfa sig og vera úti er líklegra að þau standi sig vel þegar kemur að formlegu námi. Hreyfing getur stuðlað að því að hugurinn slakar á og í kjölfarið getur barnið verið reiðubúnara að róa sig niður og takast á við verkefni sem krefjast einbeitingar.

#7 Aðstoð og tilraunir

Íhugaðu hjálpartól ef barninu gengur illa að einbeita sér. Sumir nota klukku eða timer til þess að koma krökkum af stað, og byrja þá bara á örfáum mínútum. Fyrir suma getur tónlist hjálpað (en hún truflar líka marga). Heyrnartól eru snilld fyrir þá sem þurfa aðstoð við að útiloka umhverfið. Sum börn eiga auðveldara með að einbeita sér ef þau vita af einhverjum hjá þeim – og eru þess þá fullviss að þau séu ekki að missa af einhverju öðru. Prófið ykkur áfram, það má alltaf finna leið.


Eruð þið með fleiri hugmyndir í púkkið? Endilega deilið þeim á FB síðunni okkar.

Ef þú lækar þá missir þú ekki af neinu fróðlegu foreldrastöffi á Nútímanum.

Auglýsing

læk

Instagram