Ber mér að hafa ofan af fyrir krökkunum mínum og tryggja að það sé alltaf ógeðslega gaman?

Við, sem foreldrar, eyðum töluverðum tíma í að skemmta börnunum okkar. Minningasköpun og tengslamyndun á sama tíma. Þar rúmast rándýrar Disneylands-heimsóknir, bíóferðir fyrir allan peninginn og flóknir viðburðir sem rústa sjálfstrausti jafnvel færustu viðburðastjóra.

En hvað ætli standi svo upp úr þegar öllu er á botninn hvolft? Mínar bestu æskuminningar voru lítið skipulagðar og virka þegar horft er til baka eins og einfaldar stundir sem kröfðust ekki annars en nærveru mömmu og pabba. Er ekki tíminn það dýrmætasta sem við getum gefið börnunum okkar? Ekki halda að ég sé einhver engill, efnishyggjan hefur yfirhöndina alltof oft og ég skipulegg flóknar og krefjandi samverustundir sem skilja mig eftir svo úrvinda að ég þarf að leggjast inn í á heilsuhælið í Hveragerði á eftir. Ég hef staðið með bauga niður á hné í miðju fokking Disneylandi með gaulið um að þetta sé hamingjuríkasti staður í heimi og óskað einskis frekar en að sprengja pleisið í loft upp. Ég er örugglega að ofhugsa þetta. Þær eru bestar og glaðastar ef þær fá athygli mína óskipta til þess eins að spjalla um allt og ekkert og þær myndu una sér best heima að spila veiðimann ef þær fengu að ráða. En það er auðvelt að flækja jafnvel einföldustu hluti. Og svo tekur lífið yfir og við erum öll með svo marga bolta á lofti. Þannig hafa síðustu vikur verið hjá mér í það minnsta, síminn aldrei langt undan og athyglin ekki upp á sitt besta.

Móðursamviskubitið sem lætur aldrei undan, þessi stöðuga nagandi tilfinning innan í mér, sagði að ég ætti að rjúka í einhverja stórkostlega gjörninga til að bæta þeim þetta upp. Og þá upphófst einhver vitleysan með háleitum markmiðum um bestu stundir sem þær hefðu nokkurn tímann upplifað; allt dásamlega skemmtilegt, við brosandi og valhoppandi á sólböðuðu engi eftir fullkominn dag. Þið vitið, þetta sem er dæmt til að mistakast. En sem betur fer stoppuðu þær mig af. Neituðu að stíga út fyrir hússins dyr. Vildu bara lita, spjalla og horfa á sjónvarpið eða eins og þær sögðu: Eiga kósý dag. Og þær vildu enga gesti. Við áttum bara að vera þrjár og þeim var mikið í mun að þegar við horfðum á myndina léti ég símann í friði, annars væri ég ekki að horfa á myndina með þeim.

Þá rifjaðist upp fyrir mér ein af uppáhalds minningunum með pabba í uppvextinum. Flest kvöld sat hann stjarfur yfir fréttunum (sem þá hófust stundvíslega kl. 20 á RÚV) og þá mátti ekki ónáða. En óvænt, eitt kvöldið, bauðst hann til að fórna hinum heilaga fréttatíma. Hann bauð mér í strætóferð. Við settumst upp í fjarkann á Hofsvallagötunni og fórum heilan hring með vagninum. Alla leið upp í Mjódd og aftur til baka á Hofsvallagötuna. Þetta var eins og ævintýri. Við ræddum um heima og geima en það sem stóð upp úr er að hann kenndi mér að skoða og vera forvitin um fólk. Hvaða sögu gátum við sagt okkur um fólkið sem var með okkur í vagninum? Hver var þessi kona, hvaðan var hún að koma og hvert var hún að fara? Ég kom heim á bleiku skýi. Að eiga óskipta athygli pabba var eitthvað sem gerðist ekki oft. Og hann endaði strætóferðina í sjoppunni og keypti að mér fannst allt nammið í búðinni.

Svo við eyddum deginum eins og þeim langaði. Ræddum um allt og ekkert. Stóran mín er upptekin af strákum, vildi ræða um kærastamálin sem eru óvenju öflug miðað við aldur og litlan vildi spjalla um frönskukennarann og lagið sem hún er að læra í skólanum. Þetta var ekki flóknara.

En hver veit nema ég bjóði í strætóferð um næstu helgi!

Auglýsing

læk

Instagram