Fæðingarorlof er glatað orð, þetta er í raun foreldrafasta

Hin mesta dyggð í íslensku samfélagi er að vera brjálæðislega upptekin/n. Þannig skilgreinum við velgengni – hún hefur ekkert með framleiðni eða frammistöðu að gera – heldur tilfinningu þess að við eigum annríkt og séum þar með eftirsótt, ómissandi og vonandi með nógu marga bolta á lofti ef ske kynni að við misstum einhvern þeirra.

Ég stökk í þessa gryfju og gaffaði mig fasta í hana því ég óttaðist svo að mér leiddist í fæðingarorlofinu. Ég setti allskonar mambó í gang, tók að mér ýmis konar verkefni (launalaust auðvitað, ég vil ekki fá Hvammstanga upp á móti mér) og fyllti dagskrána milli brjóstagjafa og bleia eftir bestu getu. Raunar get ég mælt með því að taka ungabörn með á fundi, það vilja allir allt fyrir mann gera – þú neitar ekki nýbakaðri móður með brjóstmylking í fanginu.

Glatað orð, annars … fæðingarorlof. Orlof er annað orð yfir frí. Samkvæmt íslenskri samheitaorðabók þýðir það að eiga frí að „vera laus“. Þvílíkt djók. Ég legg til að við notum frekar hugtakið „foreldrafasta“. Foreldrar eru augljóslega fastir þegar þeir eiga lítil börn. Og þessi tími er auðvitað ekkert annað en fasta, því lítil börn eru ofboðslega kostnaðarsöm og opinber stuðningur á þessu tímabili vart upp í nös á kettlingi. En nú á líka að fara að laga fæðingarorlofskerfið, akkúrat þegar ég er að klára mitt orlof. Takk Eygló.

Fæðingarorlofið er hinn eilífi sunnudagur. Það er allt frekar rólegt, maður fær oft gesti. Þá eru langir göngutúrar, dagdraumar og svona andleg þynnka. Og handan við hornið er óumflýjanlegur mánudagur. Þú veist að brátt þarftu að lifa atvinnulífinu þínu aftur, ef ekki aðeins fyrir veskið þá máski líka fyrir geðheilsuna.

Ég mun ekki muna uppáhaldsaugnablikin mín í þessu fæðingarorlofi því þau áttu sér stað þegar ég var sofandi. Fólk í fæðingarorlofi er líkast til eina fullorðna fólkið sem á samfélagslegan rétt á því að vera sofandi. Það skilja jú allir. Almennt göngumst við ekki við því að leggja okkur eða hafa nokkru sinni verið sofandi. Langflestir ljúga þegar maður vekur þá óvart með símhringingu eða dingli á bjöllu:

Hæ, æ var ég að vekja þig?

Ha, nei. Nei, nei – ég var bara aðeins að … [með klesst hár, slef út á kinn og svefndrukkna rödd].

Mér finnst fallegt að gefa fólki tíma. Og ég held að það sé hápunktur tillitssemi og góðvildar í garð nútímafólks að gefa því tíma til þess að sofa. Þess vegna hef ég útfært svona leyfisbréf eða ávísanir á skammlausan svefn, kríur, og dúra sem ykkur er velkomið að dreifa eftir þörfum. Hugsið ykkur bara ef yfirmaðurinn kemur til ykkar með lítinn kodda og kort sem á stendur: „Handhafi þessa leyfisbréfs á rétt á 20 mínútna kraftdúr í dag“ eða makinn þinn réttir þér í  hádeginu á laugardegi skilaboðin:„Inneign fyrir algjörum frið í fyrramálið – þú mátt sofa út, eins lengi og þér sýnist.“ Þetta væru svona ör-fæðingarorlof fyrir alla sem þurfa. Baugar hyrfu. Bros breikkuðu. Og vísindin segja að framleiðni og sköpunarkraftur eykst. Verst að þetta virkar ekki á börn. Þau vilja eiginlega aldrei leggja sig þegar maður þarf mest á því að halda.

Auglýsing

læk

Instagram