Fjórar ástæður fyrir því að aksturspeningamálið er raunverulegur skandall

Í síðustu viku kom í ljós að þingmenn frá tugi milljóna endurgreiddar í aksturskostnað á hverju ári. Það kom líka í ljós að þingmenn brjóta eigin reglur og að engar athugasemdir eru gerðar við að þeir fái ferðir á vegum flokkanna sinna endurgreiddar.

Þetta má ekki gleymast alveg strax enda um raunverulegan skandal að ræða. Hér eru fjórar ástæður fyrir því að við skulum halda þessu á lofti aðeins lengur.

1. Alþingi greiðir fyrir kosningabaráttu sitjandi þingmanna

Þetta er aðalskandallinn. Reglur Alþingis um þingfararkostnað þingmanna virðast ekki gera greinarmun á hvort þingmaður fái endurgreitt fyrir ferðir á vegum þingsins annars vegar og flokks síns hins vegar. Þetta staðfesti Ásmundur Friðriksson í viðtali við Morgunútvarpið í síðustu viku þegar hann sagði að þingið greiddi ferðir hans um kjördæmið á vegum flokksins, til dæmis á fundi og í kosningabaráttu. „Það kallar á endalaus ferðalög, þessar kosningar sem við höfum verið að lenda í,“ sagði hann.

Semsagt: Í kosningabaráttu fá þingmenn endurgreiddan ferðakostnað. Ef nýtt fólk ætlar á þing þarf það að greiða þessar ferðir úr eigin vasa, taka frí frá vinnu o.s.frv. Þingið hefur ekki gert athugasemdir við að þingmenn túlki reglurnar með þessum hætti.

2. Þingmenn brjóta reglur

Mælst er til þess í reglum um þingfararkostnað að þingmenn velji hagkvæmasta ferðamátan. „Þegar alþingismaður þarf að aka meira en 15.000 km á ári í starfi sínu skal hann fá til afnota bílaleigubifreið sem skrifstofa Alþingis leggur til,“ segir þar en bent hefur verið á að það er ódýrara fyrir þingið að greiða bílaleigubíl fyrir þingmenn en að endurgreiða aksturskostnað.

Eftirlitið er hins vegar lítið enda voru átta þingmenn í fyrra sem keyrðu frá 18.182 upp í 47.644 kílómetra á eigin bílum og fengu tugi milljóna endurgreiddar.

3. Viðbrögð þingmanna

Páll Magnússon og Brynjar Níelsson eru á meðal þeirra sem gagnrýna fréttaflutning um málið. „Get ekki orða bundist. Góða fólkið er bókstaflega að ærast af vandlætingu yfir því hvað Ásmundur Friðriksson er duglegur að sinna sínu gríðarstóra kjördæmi, sem er 700 kilómetrar endanna á milli og ámóta víðfemt og Danmörk,“ segir Páll Magnússon á Facebook en í athugasemdakerfinu eru reyndar margir vina hans ósammála.

Brynjar Níelsson tekur í sama streng á Facebook og gagnrýnir fjölmiðlana. „Krafa þessara fjölmiðla um gagnsæi er ekki til að benda okkur á hvaða þingmenn sinni þessum mikilvægu störfum af alúð og eljusemi. Nei, tilgangurinn er að ýja að einhvers konar spillingu og sjálftöku á peningum okkar hinna.“

Þeir skilja semsagt ekki að fólki finnist skrýtið að komast allt í einu að því að þingmenn geti fengið nánast 400 þúsund krónur á mánuði endurgreiddar í aksturskostnað.

4. Við vitum ekki í hvað peningarnir okkar fara

Auðvitað snýst þetta mál ekki Ásmund Friðriksson. Þingið hefur ekki gert neinar athugasemdir við hvernig hann og aðrir þingmenn umgangast peningana sem þeir hafa aðgang að.

Auðvitað eiga þessar greiðslur bara að vera opinberar svo almenningur geti fylgst með í hvað peningarnir fara. Og auðvitað eiga þingmenn líka að fylgja reglum sem þeir hafa sett um sjálfa sig. Þeir geta byrjað á því að hætta að nota opinbert fé til að greiða fyrir ferðalög þeirra í kosningabaráttu.

Hér er tilbúið frumvarp sem myndi gera laun og allar greiðslur til þingmanna opinberar og aðgengilegar fyrir almenning. Nú þarf bara einhver að leggja það fram.

Auglýsing

læk

Instagram