Fyrsta konan til að sameina starfsvettvang ballerínu, knapa og atvinnuflugmanns

Okkur dreymir öll. Mig dreymir um samfelldan 12 tíma svefn, þykkara hár og heimsfrið. Börn eiga sína drauma og þau dreymir stórt. Ég bý með verðandi flugkonuballettshestakonu. Athugið að nafnorðið kona kemur tvisvar fyrir í þessu starfsheiti. Mér finnst það dálítið töff.

Sem upplýst foreldri ætla ég ekki að útskýra fyrir fjögurra ára sveimhuga að þetta starfsheiti sé ekki til. Því hvað vitum við um framtíðina? Þetta gæti vel orðið raunin og hún fyrsta konan sem sameinar þessi heillandi verksvið danslistar, hestamennsku og atvinnuflugs.

Hér skal þó játað að þetta með flugið er okkur foreldrunum að kenna. Á fyrsta afmælisdeginum hennar fórum við í leik með veislugestunum. Leikurinn eða siðurinn er ættaður frá Taívan þar sem gestirnir koma með táknrænan hlut með sér í fyrsta afmæli barnsins, hlut sem síðan er notaður er til að spá fyrir um framtíðarstarfsframa barnsins. Hlutirnir eru lagðir fyrir framan barnið sem skríður af stað og tekur upp þann hlut sem höfðar mest til þess … í okkar tilfelli var það Duplo-leikfangaflugvél, hvers flugmaður var WonderWoman. Mögulega var þetta smá svindl því flugvélin var eini hluturinn sem flokkast gat sem eiginlegt leikfang. Næst tók dóttir okkar upp maskara og svo lyfjaglas. Þá kom sú kenning fram að hún yrði flugfreyja með einhvers konar fíknivanda, en það er önnur Ella.

Börn verða spurð þessarar spurningar alla æskuna: „Hvað ætlar þú að verða?“ og svo þegar börn klára háskólanám en bera ekki „eitthvað“ skýrt starfsheiti ennþá er kurteisi að hætta að spyrja. Við þekkjum öll fullt af fullorðnu fólki sem ekki veit ennþá hvað það ætlar að „verða“ og sem betur fer er það bara allt í fína lagi núorðið. Nú megum við nefnilega skipta um starfsframa, símennta okkur allt lífið, sinna mörgum störfum í einu og meira að segja skilgreina okkur út frá áhugasviðum okkar og ástríðum en ekki bara því sem við „endanlega urðum“. Það eru framfarir.

Auglýsing

læk

Instagram