Hver á hvern og hver er eiginlega skyldur hverjum í þessari fjölskyldu?

Fjölskyldumynstur í dag geta verið afskaplega flókin og marglaga. Mömmur, pabbar, stúpmömmur, stjúppabbar og allt það „stjúp“ sem þeim getur fylgt. Það hefur mikið verið skrifað og rætt um samskipti stjúpforeldris við barnið og það hlutverk sem það fær í lífi þess en þó er nú svo að flækjustigin eru mörg og eflaust margt sem á enn eftir að ræða í þessum efnum.

Góð vinkona hefur verið stjúpmamma í lengri tíma. Hún og stjúpdóttirin eru nánar, hafa verið alla tíð. Hún lítur á hana sem sína eigin. Það eru komin fleiri systkini í myndina en hún aðgreinir ekki á milli stjúpbarns og „sinna“ barna, öll eru þau hluti af fjölskyldunni. Við ræðum stundum þetta hlutskipti, að þykja vænt um einhvern eins og það sé manns eigið barn en standa frammi fyrir því að aðrir komi fram við mann eins og aðskotahlut í lífi barnsins.

Henni var minnisstætt í veislum, þegar stjúpdóttirin fagnaði einhverjum áfanga eða öðrum að gestir óskuðu föðurnum til hamingju með hana en sniðgengu stjúpmömmuna algjörlega. Annað var að þegar jólakort bárust fjölskyldunni var stjúpdótturinni oft sleppt úr, öllum öðrum óskað gleðilegra jóla. Auðvitað gerir enginn slíkt af illvilja, fólki yfirsést sjálfsagt bara hversu mikilvægt það er öllum að þessi tengsl séu virt og heiðruð.
En það gerist ekki af sjálfu sér, fullorðnir einstaklingar og fjölskyldur þurfa að taka meðvitaða ákvörðun um hvernig þau vilja og ætla að haga samskiptum sín í milli. Óeining á aldrei að bitna á börnum og þau ættu aldrei að velkjast í vafa um hverjir ástvinir þeirra eru.
Nú er ég í þeirri stöðu að börnin mín gætu eignast stjúpforeldri. Ef það gerist á ég mér þá eina ósk heitasta að stjúpforeldrið taki dætrum mínum sem sínum eigin og komi fram við þær þannig. Að líf þeirra verði ríkara fyrir vikið, fleiri bætist við í hóp þeirra sem beri hag þeirra fyrir brjósti og vilji þeim bara það besta og mesta í lífinu. En það verður samstarfsverkefni okkar allra sem í lífi barnanna eru að gera þau umskipti þá eins góð og hægt er og gæta þess að taka tillit til þeirra kringumstæðna sem skapast þegar fjölskyldumynstur flækjast.

Nútímaforeldrar eru líka á Facebook.
Lækaðu ef þér líkar síðan okkar og þá missir þú ekki af neinu.
Svo er dásamlegt að deila.

Auglýsing

læk

Instagram