Út á lífið

Í LA er næturlífið eitt af því sem er ólíkt því sem maður á að venjast á Íslandi. Til að byrja með er eins og það sé helgi á hverju kvöldi því það er alltaf eitthvað um að vera einhversstaðar öll kvöld vikunnar. Djammið byrjar líka fyrr en við erum vön á klakanum því hérna lokar allt klukkan tvö. Einhversstaðar heyrði ég að þessu hefði verið breytt með lögum því skemmtanaiðnaðurinn var að fara á hliðina þegar fólk var djammandi framundir morgun og enginn mætti á sett eða í áheyrnarprufur daginn eftir. Ég veit ekki hvað mikið er til í þessu en það lokar allavega allt klukkan tvö svo þá er eins gott að vera mættur á staðinn fyrir eða um miðnætti.

Á meðan við erum vön því að fara á Laugaveginn og geta rölt milli staða er það erfiðara hér þar sem skemmtistaðir og barir eru dreifðir út um allan bæ. Stærstu klúbbarnir er yfirleitt með fólk í vinnu við að „prómótera“ og þá sérstaklega að reyna að fá stelpur til að mæta og fylla staðina. Karlmenn eiga helst að kaupa borð og panta flöskur og þá helst kampavínsflöskur sem geta kostað allt upp í nokkur hundruð þúsund krónur íslenskar. Það er nefnilega ekkert sjálfgefið fyrir stráka að komast inn á skemmtistaði ef þeir ætla ekki að fjárfesta í borði, en stelpum er hleypt framfyrir í röðinni. Þær fara svo á borðin þar sem nóg er af áfengi og léttklæddar þjónustustúlkur koma í skrúðgöngu með stjörnublys og rándýrar flöskur.

Þegar lokar keyrir fólk svo heim eins og ekkert sé sjálfsagðara. Það er því miður alltof algengt að fólk keyri ölvað en hérna eru mörkin 0.8 prómill á meðan þau eru 0.2 á Íslandi. Það er eitthvað súrt við það að sjá fólk leggja bílnum sínum, fara og djúsa í nokkra klukkutíma og keyra svo heim án þess að svo mikið sem einn lögregluþjónn sé sjáanlegur. Maður hefði haldið að þetta væri tilvalið tækifæri til að moka inn peningum með sektum fyrir ölvunarakstur. Sem betur fer er Uber samt orðið sívinsælla og ég held að það sé einungis tímaspursmál hvenær leigubílafyrirtækin fara á hausinn með tilkomu fyrirtækja eins og Uber og Lyft. Hjá þeim pantar maður sér bíl í gegnum app á símanum sínum og hann er kominn innan örfárra mínútna. Það besta er að þurfa aldrei að taka upp veskið eða reikna út þjórfé því maður borgar bara með appinu sem er með kortið manns á skrá. Bílstjórinn er líka yfirleitt viðkunnanlegri en gengur og gerist því hann fær stjörnugjöf að bílferðinni lokinni og fargjaldið er allajafna lægra en í leigubílum.

Stóru klúbbarnir eru samt langt því frá einu staðirnir til að skemmta sér á því það eru ótal barir sem bjóða upp á góða stemningu hvort sem þú vilt hlusta á live tónlist, horfa á fótboltaleik, fara á uppistand, syngja í Karaoke í Korea Town eða bara drekka og spila í góðra vina hópi. Í LA geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi á hverju einsta kvöldi, allan ársins hring.

Fylgdu Nútímanum á Facebook og þú missir ekki af neinu.

Auglýsing

læk

Instagram