Sindri Þór ákærður fyrir tölvuþjófnaðinn ásamt nokkrum öðrum

Sindri Þór Stefánsson, sem strauk úr fangelsinu á Sogni fyrr í vor, hefur verið ákærður ásamt nokkrum mönnum til viðbótar fyrir þjófnað á um 600 tölvum úr þremur gagnaverum í desember og janúar. Ólafur Helgi Kjartansson lögreglustjóri á Suðurnesjum staðfestir þetta í samtali við RÚV.

Ákæran var send til Héraðsdóms Reykjaness í dag en auk þjófnaðar eru mennirnir ákærðir fyrir hylmingu. Alls voru níu handteknir í upphafi rannsóknarinnar og fjórir sættu gæsluvarðhaldi um skeið en Ólafur vill ekki gefa upp hversu margir séu ákærðir.

Mál Sindra hefur vakið mikla athygli víða um heim og hefur hann fengið viðurnefnið The Bitcoin Bandit. Hann strauk úr fangelsinu að Sogni í apríl, flúði til Svíþjóðar og síðan til Hollands þar sem hann var handtekinn í Amsterdam. Hann kom aftur til landsins í byrjun maí og hefur síðan verið í farbanni.

Sjá einnig: Sindri Þór lýsir flóttanum í viðtali við New York Times: Fór á puttanum til Keflavíkur

Málið er eitt stærsta og umfangsmesta þjófnaðarmál sem komið hefur upp hér á landi. Tölvunum sem var stolið eru metnar á 200 milljónir króna en þær eru sérhannaðar til að framleiða Bitcoin og aðra rafmynd. Tölvurnar eru enn ófundnar.

Auglýsing

læk

Instagram