Auglýsing

Versti drápari heims skal nú sjálfur deyja – Lykillinn að lengra lífi

Hjarta- og æðasjúkdómar eru skæðasti óvinur þinn, ef þú vilt eiga langa ævi. En baráttan gegn þessum sjúkdómum reynist byggja á misskilningi og því þarf að byrja upp á nýtt – með því að græða svínshjarta í mann. Hjarta Davids Bennett var hætt að virka. Þessi 57 ára Bandaríkjamaður var algerlega háður vélbúnaði sem bætti súrefni í blóðið og dældi því um líkamann. Risi hann upp úr sjúkrarúminu var dauðinn vís. Ekkert annað en tímamótauppgötvun gæti bjargað lífi hans.

Eins og 126 milljónir annarra Bandaríkjamanna þjáðist Bennett af hjarta- og æðasjúkdómi. Árlega deyr um milljón þeirra úr sjúkdómi sínum eða svo sem tveir á hverri mínútu.

En læknar Davids Bennett höfðu aðra áætlun fyrir hann. Þeir vildu prófa umdeilda aðferð sem aldrei hafði verið reynd áður á mönnum: Hjarta sjúklingsins skyldi skipt út fyrir svínshjarta.

Þessi nýja meðferð hafði ekki hlotið samþykki heilbrigðisyfirvalda en læknarnir fengu engu að síður leyfi fyrir aðgerðinni þar eð Bennett átti enga aðra lífsmöguleika. Þessar aðstæður undirstrika almennan skort að viðbragðsmöguleikum í baráttunni við hjarta- og æðasjúkdóma.

Rannsóknir á þessu sviði höfðu að vísu lengi þótt skila álitlegum árangri. Kólesteról var snemma brennimerkt sem aðalsökudólgurinn og ný úrræði með stofnfrumumeðferð virtust lofa góðu. Því miður hefur hvort tveggja nú reynst að hluta til rangt.

Hjartasérfræðingar neyðast nú til að þurrka krítartöfluna og byrja upp á nýtt – og sú aðgerð sem gerð var á David markar tímamót og nýtt upphaf.

Skæðasti drápari heims

18 milljónir dauðsfalla á ári – og meira en 30% allra dauðsfalla á heimsvísu – stafa af hjarta- og æðasjúkdómum. Að samanlögðu eru þessir sjúkdómar skæðasti drápari heims.

Til samanburðar drepur krabbamein sem er í öðru sæti, um 10 milljónir. Hlutföllin milli þessara stærstu dánarvalda eru þó mismunandi eftir heimshlutum. Í mörgum ríkjum í Norður-Evrópu eru hlutföllin til dæmis svipuð.

Hjarta- og æðasjúkdómar leggja einkum eldra fólk að velli. Meðal yngra fólks eru algengustu dánarorsakirnar hins vegar slys, sjálfsvíg og fíkniefnaneysla.

Algengasta dánarorsök er eftir búsetunni

Í flestum heimshlutum eru hjarta- og æðasjúkdómar algengasta dánarorsökin. Í Norður-Ameríku, Evrópu, Mið-Asíu, Ástralíu og stórum hluta Suður-Ameríku er veiklun hjartans (t.d. vegna kransæðastíflu) algengust. Í Suðaustur-Asíu verður blóðtappi í heila flestum að bana. Í suðurhluta Afríku er eyðni efst á listanum, Í Vestur-Afríku malaría en í Alsír, Súdan, Írak og Yemen fyrirburafæðingar.

Hugtakið hjarta- og æðasjúkdómar nær yfir sjúkdóma í hjarta og æðakerfi. Meðal þeirra algengustu eru kransæðastífla sem sviptir hjartavöðvann súrefni og blóðtappar í heila. David Bennett þjáðist af hjartabilun, að líkindum eftir slæma kransæðastíflu.

Oftast stafa þessir sjúkdómar af því að fita safnast upp í æðum. Uppsöfnuð fita á æðaveggjunum þrengir æðarnar og fyrir bragðið kemst minna blóð í gegn. Fitan getur að lokum stíflað æðina alveg og þá getur æðin brostið eða valdið lífshættulegum blóðtappa annars staðar.
Fita kæfir hjartavöðvana

Fitukekkir í blóðrásinni (einkum kransæðum) valda blóðþurrð og þar með súrefnisskorti í hjartanu. Í versta falli leiðir þetta til brjóstverkja, síðan blóðtappa í hjarta og loks stöðvast hjartað.

 

1. Fita safnast upp í kransæðum

Setlög af fitu safnast upp á æðaveggjum í blóðæðum hjartans. Þrengingin dregur úr blóðstreymi og þar með súrefni og næringu. Þetta getur valdið brjóstverk, allt eftir staðsetningu og þrengingu.

 

2. Klumpar stækka og rífa sig lausa

Safnist upp of mikil fita getur hún lokað fyrir blóðrásina eða rifið sig lausa og myndar þá blóðtappa sem valda súrefnisskorti og frumudauða í hjartanu.

 

3. Hjartað gefst upp og deyr

Súrefnisskortur getur truflað takt hjartans eða veiklað hjartavöðvana svo mikið að þeir geti ekki dælt blóði um líkamann. Í versta falli stöðvast hjartað alveg og lífinu verður ekki bjargað nema með bráðaaðgerð.

Vísindamenn hafa lengi talið að mettaðar fitur í mat séu ein helsta ástæða hjarta- og æðasjúkdóma. Samkvæmt kenningunni leiðir mettuð fita af sér aukið kólesteról í blóði og kólesterólið sest á æðaveggina.

Margir telja samhengið milli kólesteróls og hjarta- og æðasjúkdóma fullsannað og fjölmörg lyf hafa verið þróuð á grundvelli þess. En margir vísindamenn taka nú að setja spurningarmerki við þessa útbreiddu kenningu. Nýjar rannsóknir sýni að fólk með mjög mikið kólesteról lifi lengur en fólk með mjög lítið kólesteról.

Grein þessa má finna í heild sinni á vef Lifandi vísinda.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing