Flúði ofbeldismann á Spáni

[the_ad_group id="3076"]

Aprílmánuður var nýgenginn í garð og ég beið í ofvæni eftir að komast burt frá klakanum og fara á stað þar sem hlýir vindar Miðjarðarhafsins blása. Aðeins mánuður var til stefnu þar til ég myndi halda á vit ævintýranna í Barcelona. Ég var átján ára gömul og áfjáð í að drekka í mig framandi menningu.

Tækifærisgluggi hafði opnast þá um haustið þegar ég rakst á auglýsingu í Morgunblaðinu um au pair-starf í borginni. Spænsk, velstæð hjón á miðjum aldri óskuðu eftir stúlku til að gæta tveggja barna sinna, tveggja og fjögurra ára. Þau bjuggu í fínu hverfi í Barcelona, töluðu ensku og borguðu vel. Það var ekki eftir neinu að bíða.

Fyrstu mánuðina gekk allt eins og í sögu, hjónin reyndust yndisleg og börnin tvö viðráðanleg. Barcelona tók mér líka fagnandi með heiðríkum himni og iðandi mannlífi.

Hverja dauða stund sem gafst nýtti ég til að skoða mig um eða sitja á kaffihúsi og fylgjast með borgarbúum skunda hjá. Stundum kíkti ég í einstaka verslun en ég hafði unun af spænskri tísku eftir unga hönnuði. Þannig liðu dagarnir að mestu. Ég gætti barnanna sex daga vikunnar, hálfan daginn, en átti frí eftir það. Sunnudagarnir voru allir mínir. Mér þótti þetta fullkomin ráðstöfun enda hafði ég ímyndað mér mun meiri vinnu miðað við þá ríflegu þóknun sem lögð var inn á reikning-inn minn í hverjum mánuði. Hálft ár hafði liðið af dvöl minni í höfuðborg Katalóníu á Spáni og fátt markvert dregið til tíðinda. Það átti þó fljótlega eftir að breytast. Einn sunnudagsmorgun þegar ég sat í mestu makindum á uppáhaldskaffihúsinu mínu í miðborginni vatt glæsilegur maður í síðum svörtum frakka sér upp að mér og spurði mig á spænsku hvort hann mætti bjóða mér annan kaffibolla. Ringluð starði ég á hann um leið og ég velti því fyrir mér hvort mér þætti framhleypni hans heillandi eða ósvífin. Ég kaus fyrrnefndu túlkunina á framkomu hans og bauð honum sæti. Yfirborðskenndar samræður hófust um uppruna minn, ástæðu dvalar minnar og sýn mína á borgina. Þó mér fyndist óviðurkvæmilegt að ræða við bláókunnugan mann kitlaði spennan mig að sama skapi. Spenna af þeirri tegund sem aðeins óveraldarvanar unglingsstúlkur geta skýlt sér á bak við þegar þær ana út í einhverja vitleysuna. Dökkt liðað hárið sem stundum féll fram á ennið og faldi heiðblá augun höfðu líka sitt að segja. Hann var allra fallegasti karlmaður sem ég hafði augum litið og bros hans bar vott um hreinleika sálarinnar. Eða svo þótti mér á þessum fyrsta fundi okkar þegar persónan hafði ekki borið reynslunni vitni. Aldrei, hvorki fyrr eða síðar, hefur mér skjátlast jafnmikið um nokkra manneskju.

Þó mér fyndist óviðurkvæmilegt að ræða við bláókunnugan mann kitlaði spennan mig að sama skapi. Spenna af þeirri tegund sem aðeins óveraldarvanar unglingsstúlkur geta skýlt sér á bak við þegar þær ana út í einhverja vitleysuna.

Sagði engum frá sambandinu  
Það var margt í fari hans og háttum sem vissi ekki á gott þegar við hófum fyrstu kynni en ég kaus að láta öll slík merki lönd og leið. Þar sem ég hafði flónskast til að gefa honum símanúmerið mitt á kaffihúsinu gat ég ekki átt von á öðru en hann hefði samband. Hins vegar vænti ég ekki símhringinga í tíma og ótíma. Ég vildi fara hægt í sakirnar en hann gaf sig ekki fyrr en ég samþykkti stefnumót að viku liðinni frá því fundum okkar bar fyrst saman. Fljótlega tókum við að hittast hvenær sem færi gafst. Hann starfaði sem úlitshönnuður hjá virtu tímariti í Barcelona og átti oft mjög annríkt en alltaf tókst honum að búa til tíma fyrir mig. Ég sagði engum frá sambandi okkar en eftir því sem tíminn leið og stefnumótunum fjölgaði fór ég að finna fyrir sterkum tilfinningum í hans garð. Þegar best lét bar hann mig á höndum sér og kynnti mér líf allra þeirra nautna sem konu getur dreymt um. Hann hlóð á mig gjöfum, orti til mín ljóð, leiddi mig um listagallerí og vandaða veitingastaði, elskaði mig af ástríðu, talaði af speki og fékk mig til að hlæja eins og barn. Það var því að vonum ekki átakalaust að kveðja hann að ársdvöl minni lokinni í Barcelona. Við ákváðum að hann kæmi í heimsókn til Íslands við fyrsta tækifæri þá um sumarið og seinna myndi ég fljúga aftur með honum utan. Þó fjórtán ára aldursmunur greindi okkur að og foreldrar mínir hafi lengi vel ekkert vitað af sambandi okkar kom það ekki að sök þegar þau loks hittu þennan suðræna sjarmör. Hann hafði sérstakt lag á að villa á sér heimildir og fá fólk til að trúa öllu hinu besta um sig. Það reyndist um seinan þegar ég loks sá í gegnum það.

[the_ad_group id="3077"]

Andleg kúgun 
Ég flutti inn í ríkmannlega útbúna íbúð hans í ágústmánuði. Fjölskylda hans átti fjölda fyrirtækja í borginni en það skýrði hluta af peningaveldi unnusta míns. Sjálf átti ég ekkert nema fötin mín, ferðatöskuna, myndir af fjölskyldunni heima á Fróni og sjálfa mig. Ekki leið á löngu þar til hann tók að færa það litla sem tilheyrði mér inn í bakherbergi heimilisins. Fjölskyldumyndirnar fengu ekki pláss í stofunni og fötunum mínum var skipt út fyrir önnur sem honum þótti henta mér betur. Smám saman varð ég eins og skugginn af sjálfri mér. Þessi umskipti gerðust samt svo hægt að ég gerði mér raunverulega litla sem enga grein fyrir þeim. Að árs sambúð liðinni tók hann að gagnrýna ýmsa þætti sem vörðuðu útlit mitt. Ég var ekki lengur jafngrönn að hans sögn og þegar við fyrst hittumst. Honum fannst ég bæði vanrækja útlitið og heimilið. Fjölskylda mín var einnig snarvitlaus að hans viti og hafði slæm áhrif á mig. Inn á milli aðdróttana af þessu tagi var hann yndislegur við mig, blíður og nærgætinn. Það var sem í honum byggju tvær andstæðar persónur. Þannig hófst ofbeldið, fyrst með andlegri kúgun. Líkamlegt ofbeldi kom síðar inn í myndina.

Fögur fyrirheit 
Eftir fimm ára sambúð eignuðumst við okkar fyrsta barn. Hann hafði þá í nokkurn tíma lagt mikinn þrýsting á mig að eignast erfingja. Mér fannst ég enn of ung en hafði samúð með því sjónarmiði að hann væri á fertugsaldri og hefði lengi þráð barn. Ég held því ekki fram að ég hafi eignast barnið fyrir hann en þrýstingur af hans hálfu hafði engu að síður sín áhrif. Á fyrsta ári drengsins okkar gekk sambúðin nokkuð vel og lítið var um árekstra. Ég var heimavinnandi og lagði mig alla fram um að sinna stráknum okkar af alúð. Unnusti minn starfaði enn á sama tímaritinu sem útlitshönnuður en við höfðum ráðið til okkar húshjálp til að halda heimilinu hreinu og hafa til kvöldmat fjórum sinnum í viku. Ennþá bar eitthvað á gagnrýni unnustans í minn garð en ég var sennilega orðin hálfdofin gagnvart slíku eftir öll þessi ár. Stuttu eftir eins árs afmæli sonar okkar fór að halla verulega undan fæti í sambandinu. Það var þá sem tók að bera á alvarlegu ofbeldi hans gegn mér. Í eitthvert skiptið af mörgum þegar hann kom heim undir miðnætti í miðri viku, að eigin sögn úr vinnu, leyfði ég mér í fyrsta sinn að draga frásögn hans í efa. Ég vissi sem var að starfsins vegna átti hann oft ansi annríkt og því hafði ég fram að þessu ekki dregið sannleiksgildi skýringa hans í efa. Nú báru föt hans hins vegar keim af kvenmannsangan og mig fór að gruna hann um framhjáhald. Þegar ég bar grunsemdir mínar undir hann brást hann ókvæða við og gekk í skrokk á mér.

Leiðin heim tók nokkrar klukkustundir í það heila en um marga daga virtist vera að ræða í mínum huga. Margs konar tilfinningar tókust á innra með mér á meðan á ferðalaginu stóð.

Þetta átti eftir að reynast upphafið að langri baráttu minni við að leggja á flótta frá þessum manni. Ódæðisverkum hans linnti ekki og allt milli himins og jarðar varð honum ástæða til að grípa til ofbeldis. Þess á milli kraup hann á kné, oftast gráti nær, og hét því að þessu líkt gerðist aldrei aftur. Hann var ávallt fullur iðrunar, þjakaður af vanmætti og sektarkennd enda kom hann fram við mig eins og drottningu næstu vikurnar á eftir. Ég trúði í hvert sinn loforðum hans um betrumbót. Ekki var þó um annað að ræða en fögur fyrirheit.

„Ég ákvað engu að síður að taka áhættuna. Í margar vikur skipulagði ég flótta minn og sonarins með aðstoð góðra vina hið ytra.“

Flúði Spán  
Á þeim tíu árum sem við bjuggum saman hafði mér margoft dottið í hug að stinga unnustann af en aldrei lagt í það. Drengurinn okkar batt okkur órjúfanlegum böndum og ég hræddist ekkert frekar í veröldinni en að missa barnið mitt. Það var lán í óláni að ég og barnsfaðir minn gengum ekki í hjónaband en ég óttaðist samt um stöðu mína ef til forræðisdeilu kæmi. Barnsfaðir minn hafði aðgang að bestu lögfræðingum landsins og var til alls vís. Ég hafði loks fengið það af mér að segja fjölskyldu minni á Íslandi frá ofbeldinu af hans hálfu og þau höfðu í framhaldinu samband við utanríkisráðuneytið til að kanna stöðu mína ef til þess kæmi að ég flýði Spán. Málið yrði afar flókið ef ég færi af landi brott til míns heima og litlar líkur á að ég ynni forræðisdeiluna ef til hennar kæmi. Ég ákvað engu að síður að taka áhættuna. Í margar vikur skipulagði ég flótta minn og sonarins með aðstoð góðra vina hið ytra.

Til stóð að sambýlismaður minn færi í sólarhringsviðskiptaferð til Madrid en þá ætlaði ég að taka af skarið. Ég var í stöðugu sambandi við fólkið mitt heima, þegar tóm gafst til, og þau hjálpuðu einnig mikið til við ýmis atriði sem sneru að flóttanum. Það var að mörgu að hyggja en fyrst og síðast urðu allir að gæta fyllstu varkárni þannig að sambýlismann minn myndi ekkert gruna. Við sonur minn vorum sótt af vinkonu minni í skjóli nætur þannig að nágrannarnir myndu ekki einu sinni velta því fyrir sér að eitthvað misjafnt væri á seyði. Hún keyrði okkur á lestarstöðina og þaðan hófum við flótta okkar til Íslands. Leiðin heim tók nokkrar klukku-stundir í það heila en um marga daga virtist vera að ræða í mínum huga. Margs konar tilfinningar tókust á innra með mér á meðan á ferðalaginu stóð. Ég upplifði í fyrsta sinn í mörg ár einstaka frelsistilfinningu en barðist einnig við lamandi óttann um framtíðina.

Ár er nú liðið frá því að ég tók hina afdrifaríku ákvörðun að leggja á flótta frá barnsföður mínum og hann kærði mig fyrir barnsrán til Interpol. Við stöndum nú í illvígri forræðisdeilu um son okkar sem tekur hræðilega á taugarnar en ég er engu að síður sannfærð um að hafa breytt rétt. Ég er full vissu um að hafa betur í þessari baráttu og að mér muni vera fært að búa syni mínum öruggt og ástríkt umhverfi í nánustu framtíð. Hefði ég verið um kyrrt væri slíkt borin von. Ég trúi því að framtíðin færi mér og syninum betri tíma.

Fullt af áhugaverðum sögum inn á vef Birtíngs – www.birtingur.is

Auglýsing

læk

Instagram