Aron Hannes er hvergi banginn eftir Eurovision: „Ég ætla mér stóra hluti“

Aron Hannes Emilsson, sem sló í gegn með lagið sitt Nótt í Söngvakeppni sjónvarpsins, ætlar sér stóra hluti í framtíðinni. Hann stefnir á að gefa út lög í nánustu framtíð en er þó ekki búinn að ákveða í hvaða stíl lögin verða.

Í samtali við Nútímann byrjar Aron Hannes á að rifja upp söngvakeppina. „Það kom mér á óvart hversu gaman þetta var, allt ferlið, og hversu vel RÚV vann að keppninni. Svo komu margir flytjendur mér á óvart í keppninni,“ segir hann.

Aron Hannes segist ekki hafa upplifað mikið stress í kringum keppnina og að það sé aðallega vegna reynslu sinni á því að koma fram. „Það horfa samt allir Íslendingar á söngvakeppnina og þetta er því með því stærsta sem ég hef tekið þátt í. Ég fann samt ekki fyrir stressi,“ segir hann.

Hann segist þó vel hafa fundið fyrir því hversu vinsæll hann varð á þessum vikum í kringum keppnina en að það hafi verið eitt af markmiðunum. „Fólk fór að taka meira eftir manni. Með þátttöku í söngvakeppninni vildi ég fyrst og fremst koma mér framfæri og sýna fólki að ég er til og hvað ég hef fram að færa,“ segir Aron Hannes

Það var mjög skemmtilegt að sjá hversu vel fólk var að taka í lagið og mig. Sem er frábært eftir þessa mikla vinnu sem ég lagði í verkefnið. Það er alltaf gott þegar fólk fílar það sem maður er að gera — sérstaklega eftir þriggja mánaða vinnu.

Aðspurður hvað taki við hjá honum segir hann margt enn óákveðið en að hann ætli sér stóra hluti í framtíðinni. „Ég ætla klárlega að gefa út lög og það eiga nokkrir eftir að koma til að vinna með mér í því. Ég veit ekki hverjir eða í hvernig stíl lögin verða, ég á eftir að funda um það með teyminu mínu en ég ætla mér stóra hluti,“ segir Aron Hannes.

Hlustaðu á lag Arons Hannesar hér fyrir neðan

Auglýsing

læk

Instagram