Auðveldara að streyma tónlist en ná í hana ólöglega

Auglýsing

Ólöglegt niðurhal tónlistar minnkar eftir því sem streymisveitur verða vinsælli samkvæmt nýjum tölum frá Bretlandi. Nú segjast aðeins einn af hverjum tíu hala niður tónlist með ólöglegum hætti sem er 18 prósent minnkun frá árinu 2013 að því er kemur fram í frétt á vef BBC.

Samkvæmt rannsókn sem YouGov gerði í Bretlandi mun þróunin halda svona áfram því 22 prósent þeirra sem stunda ólöglegt niðurhal búast ekki við því að gera það eftir fimm ár.

„Það er auðveldara að streyma tónlist en að hala henni ólöglega niður,“ sagði einn þátttakandi rannsóknarinnar og annar þátttakandi bætti við að tilkoma Spotify hafi breytt öllu og fyllt upp í tómarúm þannig að ekki sé lengur þörf á því að nota aðrar leiðir til að ná í tónlist.

Þessar fréttir eru góðar fyrir tónlistariðnaðinn sem er loksins að rétta úr kútnum eftir að hafa fengið slæma útreið vegna ólöglegs niðurhals í byrjun aldarinnar. Tónlistariðnaðurinn brást við með grimmum herferðum gegn síðum sem buðu upp á ólöglegt niðurhal tónlistar eins og Napster og Pirate Bay.

Auglýsing

Í rannsókn YouGov kemur einnig fram að 36 prósent svarenda sögðu það erfiðara  að finna slíkar síður nú en áður. Þrátt fyrir það eru útgáfufyrirtæki í tónlistariðnaðinum með áhyggjur af síðum sem bjóða upp á „streymisstuld“ og birtast nú í vaxandi mæli. Þar geta notendur „tekið“ tónlist frá streymisveitum eins og YouTube og Spotify og sett á síma sína eða tölvur sem veldur því að tónlistarmenn og útgáfufyrirtæki þeirra fá ekki tekjur af spilun laganna.

Einnig kom fram í rannsókninni að 44 prósent notenda stunda ólöglegt niðurhal þegar þeir geta ekki fengið tónlistina annars staðar vegna réttinda sumra streymisveita.

Plata ofurparsins Beyoncé og JAY-Z „Everything Is Love“ var til að mynda ein af mest stolnu plötum ársins en hún var upphaflega aðeins gefin út á Tidal, streymisveitu JAY-Z sem er ekki aðgengileg þeim sem eru ekki með áskrift að henni.

„Þó að ólöglegt niðurhal sé ennþá mikil áskorun fyrir tónlistariðnaðinn þá virðist vera ljós við enda gangnanna. Hvort að streymisveitur verði það sem gerir út af við ólöglegt niðurhal á eftir að koma í ljós en það eru jákvæð teikn á lofti,“ sagði Justin Marshall aðstoðarforstjóri YouGov.

Rúmlega fjögurþúsund manns tóku þátt í rannsókninni en tekið er fram að niðurstöður rannsóknarinnar hafi mögulega skekkst vegna þess að þátttakendur gætu hafa verið tregir við að viðurkenna að þeir stundi ólöglegt niðurhal.

Plötu The Carters, eins og þau Beyoncé og JAY-Z kalla sig, má hlusta á hér að neðan

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram