Bjarni treystir Hannesi, Birgi og Ásgeiri

„Ég tel að málið sé ekki þannig vaxið að það sé ástæða til þess að fara með þetta í einhvern þverpólitískan farveg og efna til mikilla útgjalda og setja af stað stóra rannsókn,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í viðtali við RÚV.

Bjarni segist bera fullt traust til Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og til þeirra sem hún velji til að vinna mat á erlendum áhrifaþáttum bankahrunsins. Hann segir að verkið sé afmarkað og að umfang þess kalli ekki á aðkomu Alþingis.

„Þetta er einmitt mál sem er næganlega afmarkað að umfangi að það kallar ekki á sérstaka aðkomu þingsins að mínu áliti. Félagsvísindastofnun er vel búin til þess að vinna þetta verk fyrir fjármála-og efnahagsráðuneytið og við munum gera skýrsluna opinbera þegar hún er tilbúin.“

Hannes Hólmsteinn Gissurarson stýrir verkefninu og hefur það verið gagnrýnt. Þá efast einhverjir um að hægt sé að treysta á hlutleysi Birgis Þórs Runólfssonar og Ásgeirs Jónssonar sem vinna verkefnið með Hannesi. Þeir eru báðir dósentar í hagfræði en Ásgeir var yfir greiningardeild Kaupþings fyrir og í hruninu og Birgir Þór sat í stjórn SPKef.

Bjarni efast ekki um hæfi þeirra. „Ég tel að aðkoma þeirra, með beinum eða óbeinum hætti, að íslenska fjármálakerfinu dragi úr engan hátt úr getu þeirra til að leggja mat á þá þætti sem við erum að taka til skoðunar og hefðum átt að koma til skoðunar fyrir löngu síðan.“

Hannes Hólmsteinn lætur engan bilbug á sér finna.

Auglýsing

læk

Instagram