Eyjan Vigur til sölu: „Síminn hefur ekki stoppað“

Eyjan Vigur í Ísafjarðardjúpi er til sölu eins og hún leggur sig.

„Svona eyja kemur nánast aldrei í sölu þannig að þetta er einstakt tækifæri,“ segir Davíð Ólafsson fasteignasali í samtali við Nútímann.

Hann segir símann ekki hafa stoppað síðan eyjan fór í sölu klukkan 11 í morgun. „Ég er búinn að fá símtöl alls staðar að úr heiminum en við skoðum öll tilboð í rólegheitum,“ segir Davíð.

Eyjan er 45 hektarar og húsakostur er yfir 700 fermetrar.

Mikið dýralíf er í eyjunni en þar verpa einstaklega gæfar teistur og mörg þúsund lundar og kríur. Þar er einnig mikið æðarvarp og kindur á beit.

„Þetta er algjör paradís.“

Rúmlega tíu þúsund manns heimsækja eyjuna á hverju ári og Davíð segir marga möguleika fyrir vaxandi ferðamennsku vera fyrir hendi.

Aðspurður segir Davíð eyjuna kosta það sem einhver vilji borga fyrir hana en verðið sé í kringum 300 milljónir.

 

Auglýsing

læk

Instagram