Fjögur ný tækifæri fyrir ríka til að sýna ríkidæmi sitt

Með batnandi efnahagsástandi getur reynst stöðugt erfiðara fyrir moldríka að sýna ríkidæmi sitt. Það eru þó alltaf leiðir og Nútíminn fann fjórar skotheldar sem ættu að vekja athygli og aðdáun.

 

1. Pókermót með næði og þriggja rétta máltíð

Pókermót svokallaðra Stórbokka fer fram á Grand hóteli í dag. Þetta er kjörið tækifæri fyrir þá ríku til að sýna ríkidæmi sitt en 115 þúsundkrónur kostar að vera með. Spurning um að detta viljandi út því þá er hægt að kaupa sig inn aftur fyrir 100 þúsund krónur.

Mótið fer fram í glæsilegri aðstöðu á efri hæðum hótelsins og hlé verður gert til að snæða þriggja rétta kvöldverð. Mikið er lagt upp úr næði keppenda og mótið er því ekki opið fyrir áhorfendur.

2. Sími sem enginn annar á

samsung-galaxy-note-edge-photo-story-blade-1

Ef allir ríku vinir þínir eru komnir með gylltan iPhone 6 er hægt að skjóta þeim ref fyrir rass með nýja Samsung Galaxy Note Edge.

Samkvæmt færslu á vef Nova var síminn aðeins framleiddur í milljón eintökum sem minnkar stórlega líkurnar á því að hitta einhvern með alveg eins síma. Helsta nýjungin við símann er skjárinn sem lekur til hliðana öðru megin. Ekki slæmt að rífa þennan upp í matarboðinu í kvöld.

3. Eitt dýrasta hús landsins á besta stað

791298

Marta María fjallaði um eitt glæsilegasta hús landsins á mbl.is fyrir helgi. Talað er um að húsið sé eitt það dýrasta á landinu en það stendur við Laufásveg og hefur allt verið endurnýjað.

Það er fátt sem segir „ég er ríkur“ með skýrari hætti en fallegt hús. Þetta er því kjörið tækifæri fyrir þau sem eru með mikið á milli handanna.

4. Glansandi Benz á 39 milljónir

Mercedes-Benz-S-Class-S500-PLUG-IN-HYBRID-AMG-Line-L

Rúsínan í pylsuendanum er þessi glæsilegi Mercedes Benz S500 AMG-line sem bílaumboðið Askja efur flutt til landsins. Bíllinn er stórglæsilegur og kostar litlar 38,7 milljónir en þú myndir auðvitað segja að hann hafi kostað 40.

Meðal þess sem bíllinn státar af er sjálfvirkt fjöðrunarkerfi sem byggir á myndavélabúnaði sem skannar veginn framundan og lagar fjöðrunina að ójöfnum áður en ekið er yfir þær. Við skiljum ekki hvernig það virkar en þetta hljómar eins og mjög dýrt dót.

Viðskiptablaðið fjallaði um bílinn í gær. Þar kemur fram að hann er 15 sm lengri en hefðbundin gerð og býður þar af leiðandi upp á umtalsvert meiri þægindi fyrir aftursætisfarþega. Hann er með V8 vél og er með 4matic aldrifskerfinu. Í bílnum er nánast allur sá búnaður sem fáanlegur er í bíl þessarar gerðar, þ.á m. sjálfvirkt fjöðrunarkerfi, Burmeister hljómkerfi, blindvari, akreinavari og margt fleira.

Auglýsing

læk

Instagram