Frægasta mynd Íslandssögunnar reglulega upp kollinum, hundruð þúsunda taka þátt í gríninu

Fræg mynd af af Agli Viðarssyni hefur enn á ný skotið upp kollinum á víðlendum internetsins. Í þetta skipti á Facebook-síðu tímaritsins Unilad.

Lesendur eru hvattir til að tagga vin sem lítur út eins og Egill eftir aðeins fimm mínútur í sólinni. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa en þegar þetta er skrifað eru ummælin orðið fleiri en 244 þúsund, lækin tæplega 50 þúsund og deilingarnar rúmlega 56 þúsund.

Sögu myndarinnar má rekja til ársins 2006. Vinur Egils tók af honum mynd eftir Hróarskelduhátíðina í Danmörku

Árið 2014 birti Vísir frétt um myndina. Þá sagðist Egill telja að myndin láti sólbrunann líta verr út en hann var í raun og veru. „Þetta var allavega ekki eins sárt og þetta lítur út fyrir að vera. Vinur minn tók myndina og vistaði á vefsíðunni sinni. Þaðan fór hún í dreifingu um allt netið,“ sagði Egill þá.

Nútíminn spurði Egil hvernig það er að láta þennan fortíðardraug elta sig á röndum. Hann játar að hafa rekist reglulega á myndina. „Það er plan b þegar líf mitt fer í vaskinn að hafa lífsafkomu af því að kæra fólk fyrir notkun á myndinni — eins og trúðurinn Bozo gerir víst,“ segir Egill laufléttur.

Og myndin hefur sannarlega farið víða. Hún endaði meira að segja í auglýsingu fyrir Pepsi fyrir nokkrum árum. Í frétt Vísis um myndina kom fram að Pepsi notaði myndina í óleyfi. Vinur Egils hafði þá samband við gosdrykkjarisann og fékk í kjölfarið sendan risastóran kassa með einum lítra af Pepsi Max, tvo Pepsi Max-boli og bréf með afsökunarbeiðni.

Þá var myndin notuð sem lokahnykkur brandara hjá breskum grínasta á BBC

„Grínið var um Eyjafjallajökul, en hann virðist ekki hafa vitað að myndin sem hann notaði var af Íslendingi. Það virðist bara hafa verið tilviljun,“ sagði Egill í samtali við Vísi.

Þá hafa vinir Egils gengið svo langt að gera um hann heimildarmynd sem hverfist um myndina

Heimildarmyndina fékk Egill í þrítugsafmælisgjöf.

Og hann hefur gaman þessu eilífa lífi myndarinnar, sem varð tíu ára í sumar. „Hún er stöðugur gleðigjafi,“ segir hann.

Auglýsing

læk

Instagram