Friðrik Dór og Óli Arnalds opna skyndibitastað

Draumur söngvarans og skyndibitaunnandans Friðriks Dórs rætist á næstunni þegar hann opnar skyndibitastað með félögum sínum.

 

Tónlistarmennirnir Friðrik Dór og Ólafur Arnalds opna á næstunni skyndibitastað með vinum sínum Arnari Dan og Hermanni Óla. Staðurinn heitir Reykjavík Chips og verður á Vitastíg 10. Staðurinn kemur til með að bjóða upp á eðal heimagerðar franskar kartöflur ásamt úrvali af góðum sósum.

Sjá einnig: Friðrik Dór kom aðdáanda númer eitt á óvart

Friðrik Dór segir í samtali við Nútímann að maturinn verði borinn fram að belgískum sið í keiluformi úr pappa, þar sem sósan er sett ofan á franskarnar og allt svo borðað með gafli.

Með þessu getur fólk svo svolgrað niður ísköldum kóladrykk eða eðalbjór. Konseptið er sem sagt upprunalega frá Belgíu þar sem allt er morandi í svona stöðum. Raunar yrðu Belgar bálreiðir að heyra okkur tala um franskar, svo við viljum heldur tala um belgískar kartöflur í framtíðinni.

Friðrik er annálaður unnandi skyndibita og stýrði til dæmis þættinum Sósa og salat á Stöð 2, þar sem hann ferðaðist um og smakkaði bestu bitana í bænum. En hvernig kom þetta til?

„Þetta kom þannig til að Arnar Dan leikari og æskuvinur minn, bað mig og Hermann Óla, annan æskuvin okkar um að hitta sig til að ræða viðskiptahugmynd,“ útskýrir Friðrik.

„Arnar var þá nýkominn heim frá Mílanó, hvar hann hafði búið um tíma og bar þessa hugmynd upp við okkur. Stuttu eftir þetta hitti ég svo annan áhugamann um belgískar kartöflur, Ólaf Arnalds, til að ræða málefni þessu ótengd en nefndi hugmyndina við hann í framhjáhlaupi.

Þá kom upp úr dúrnum að Óli hafði gengið með þessa sömu hugmynd í maganum í einhvern tíma og vildi ólmur vera með. Belgískar kartöflur eru nefnilega einn af fáum skyndibitum sem henta grænmetisætum eins og honum. Upp úr þessu varð Reykjavík Chips til.“

Friðrik Dór segir að með opnun staðarins sé draumur að rætast.

„Ég elska skyndibita og mig hefur lengi langað að opna einhvern skemmtilegan og ferskan skyndibitastað. Ég heimsótti líka Belgíu sumarið 2013 og féll þá fyrir þessum þjóðarrétti Belga,“ segir hann.

„Þetta konsept smellpassaði því inn í drauminn um skemmtilega skyndibitastaðinn svo ég ákvað að slá til. Emmsjé Gauti skaut reyndar á mig á Twitter í gær að það þyrfti að setja skýrar reglur um hversu mikið ég mætti skrifa á mig og sagðist þar hafa heilsufar mitt í huga. Ég held hann hafi töluvert til sín máls …“

Auglýsing

læk

Instagram