Gagnrýna BBC fyrir að ráða ekki fatlaðan leikara: „Sífellt verið að horfa fram hjá hæfileikaríkum fötluðum einstaklingum”

Breska sjónvarpsstöðin BBC hefur verið gagnrýnd fyrir að ráða ekki fatlaðan leikara í hlutverk Fílamannsins í nýjum sjónvarpsþáttum stöðvarinnar. Stranger Things stjarnan Charlie Heaton mun leika aðalhlutverkið í þáttunum.

Sjónvarpsþættirnir sem munu fjalla um líf Joseph Merrick verða frumsýndir á næsta ári. Merrick átti erfiða ævi en á fyrstu árum ævinnar fór að bera á afmyndun sem jókst með aldrinum. Vansköpunin gerði honum erfitt fyrir og fólk fór að hræðast hann. Á unglingsaldri var honum komið fyrir á þurfamannastofnun en eftir erfið ár þar gerðist hann viðundur að atvinnu og kom fram viðundrasýningum sem Fílamaðurinn.

Góðgerðasamtökin Scope, sem berjast fyrir réttindum fatlaðra, hafa gagnrýnt val á aðalleikara þáttanna og segja það vonbrigði að ófatlaður einstaklingur muni leika aðalhlutverkið.

„Það eru gífurleg vonbrigði að ekki hafi verið ráðinn fatlaður leikari þar sem að sagan um fílamanninn er ein sú áhrifamesta þegar kemur að baráttu fatlaðra,” sagði Phil Talbot, talsmaður Scope.

„Það er sífellt verið að horfa fram hjá hæfileikaríkum fötluðum einstaklingum. Þessi bransi ætti að vera að fagna fjölbreytileikanum í staðinn fyrir að hunsa hann.”

BBC hafa svarað gagnrýninni og segja að fatlaðir einstaklingar muni leika önnur hlutverk í þáttaröðinni. Í tilkynningunni frá stöðinni segir að sagan um Fílamanninn hafi spilað stórt hlutverk í því að breyta hugsunarhætti almennings gagnvart fötluðum og að stöðin muni ráða fatlaða einstaklinga í lykilhlutverk í þáttunum.

Þættirnir munu fjalla um ævi Merrick frá unga aldri þar til að hann lést á spítala 27 ára gamall.

Auglýsing

læk

Instagram