Garðbæingar æfir yfir framferði stuðningsmanna ÍR í körfunni: „Vonandi verður ykkur sópað út“

Mikil reiði er á meðal stuðningsfólks Stjörnunnar sem telur stuðningssveit ÍR, Ghetto Hooligans, hafa sýnt Hlyni Bæringssyni, miðherja Stjörnunnar, vanvirðingu. ÍR sló Stjörnuna út úr úrslitakeppninni í Domino’s-deild karla í körfubolta í gær með sigri í gríðarlega spennandi leik í Garðabænum.

Hlynur lék ekki með Stjörnunni í fjórða leik liðanna í gærkvöldi en hann hlaut meiðsli eftir þungt högg frá Ryan Taylor, leikmanni ÍR, í þriðja leik liðanna í síðustu viku. Ryan fékk þriggja leikja bann fyrir höggið, sem hleypti illu blóði einvígi liðanna — sérstaklega á meðal stuðningsfólks.

Stuðningsmannasveit ÍR mætti með Stjörnutreyju á herðatré í Garðabæinn í gærkvöldi. Á treyjunni hékk borði sem á stóð: „Drama Queen“ og stuðningsfólk Stjörnunnar leit svo á að uppátækinu hafi verið beint til Hlyns.

Útvarpsmaðurinn Máni Pétursson, einn dyggasti stuðningsmaður Stjörnunnar, birti mynd af stuðningsmanni ÍR með umrædda treyju í gærkvöldi og sagðist vona að ÍR yrði sópað út úr úrslitakeppninni. „Hlynur spilaði ekki í dag vegna höfuðmeiðsla sem allir vita að eru alvarleg meiðsli og geta endað feril leikmanna,“ sagði hann og bætti svo þessu tísti við:

Stuðningsmaðurinn á myndinni hefur í hópnum Domino’s spjallið á Facebook beðist afsökunar á því sem hann kallar taktlaust grín. Hann hafnar því að treyjunni hafi sérstaklega verið beint til Hlyns. Nútíminn hafði samband við stuðningsmanninn sem baðst undan viðtali um málið.

Sjá einnig: Biður þá sem Drama queen-borðinn særði afsökunar: „Gríninu var ekki beint að áverkum Hlyns“

Auglýsing

læk

Instagram