Gefur íslenskri kvikmynd í fyrsta skipti fimm stjörnur eftir að hafa verið gagnrýnandi í 17 ár

Þórarinn Þórarinsson, blaðamaður og kvikmyndagagnrýnandi, gefur kvikmyndinni Kona fer í stríð fimm stjörnur í Fréttablaðinu í dag. Þetta er í fyrsta skipti sem Þórarinn gefur íslenskri kvikmynd fullt hús sem væri kannski ekki í frásögur færandi nema vegna þess að hann hefur gagnrýnt kvikmyndir í 17 ár.

Fyrstu dómar Þórarins birtust á vefmiðlinum Strik.is í maí árið 2001 og ein fyrsta myndin sem hann rýndi í var Lalli Johns. „Lalli hefur sögu að segja og við hljótum að una honum þess að verða filmstar um stundarsakir,“ sagði Þórarinn í dómnum. Hann hefur komið víða við, fór af Strik.is á Fréttablaðið, þaðan á Mannlíf, DV, Fréttatímann og er núna kominn aftur á Fréttablaðið.

Halldóra Geirharðsdóttir fer með aðalhlutverki í Kona fer í stríð en Benedikt Erlingsson leikstýrir myndinni ásamt því að skrifa handritið með Ólafi Egilssyni. Þórarinn er afar ánægður með myndina og í dómnum hvetur hann fólk til að fara í bíó: „Sjáið þessa mynd, látið heillast og fellið nokkur tár. Ef Kona sem fer í stríð hreyfir ekki við ykkur mæli ég með að þið pantið tíma hjá Lækna-Tómasi og biðjið hann um að finna í ykkur hjartað.“

Oft hefur verið talað um að íslenskar kvikmyndir séu með einhvers konar forgjöf þegar kemur að stjörnugjöf gagnrýnenda. Í samtali við Nútímann segist Þórarinn aldrei hafa tekið þátt í slíku. „En ég hef nú samt tamið mér þá kurteisi að reyna frekar að horfa á það sem er jákvætt þegar íslenskar myndir eru annars vegar,“ segir hann.

En þessi auka-stjörnu meðvirkni er náttúrlega skaðræði og ef maður hefði látið hana eftir sér og ætlaði að vera sjálfum sér samkvæmur í dag væri maður kominn i sjálfheldu þar sem íslenskar bíómyndir eru alltaf að verða betri og betri.

Þórarinn segir að hann þyrfti hreinlega að sprengja skalann í dag ef hann íslenskar myndir hefði fengið hjá honum of margar stjörnur miðað við gæði. „Miðað við íslensku forgjöfina hefði ég þá þurft að gefa Konunni hvað, 6-7 stjörnur?“

Auglýsing

læk

Instagram