IKEA gefur flóttafólki 100 þúsund króna inneign á mann

IKEA ætlar að gefa hverjum flóttamanni í hópi sem er væntanlegur til landsins hundrað þúsund króna inneign. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA, segir í Fréttablaðinu að fyrirtækið vilji taka þátt í að skapa flóttafólkinu sem hingað kemur tækifæri til að aðlagast samfélaginu.

Markmið okkar er tvíþætt. Annars vegar að hjálpa fólki að aðlagast samfélaginu og hins vegar að létta því róðurinn þessa fyrstu daga og vikur.

Flóttamennirnir fá 100 þúsund krónur á mann og sem dæmi fær móðir með tvö börn samtals þrjú hundruð þúsund króna inneign. Í Fréttablaðinu kemur fram að IKEA vinni náið með Rauða krossinum og aðstoði flóttamenn með því að leggja til húsgögn og húsbúnað, nú síðast þegar flóttamenn frá Palestínu settust að á Akranesi.

Þá vill fyrirtækið leggja enn frekar af mörkum og tekur þátt í átaki Vinnumálastofnunar sem leitast við að útvega flóttafólki störf á höfuðborgarsvæðinu.

„IKEA hefur í gegnum tíðina verið vinnustaður fólks með mjög fjölbreyttan bakgrunn. Við erum með hátt í 100 starfsmenn með erlendan bakgrunn. Þetta er margt af okkar albesta fólki og það væri ekki hægt að reka fyrirtækið ef ekki kæmi til framlag þessara frábæru einstaklinga,“ segir Þórarinn í Fréttablaðinu.

„Við viljum frama þeirra sem mestan innan fyrirtækisins og bjóðum því öllum starfsmönnum upp á ókeypis íslenskunám í vinnutíma, en lykillinn að því að vinna sig upp er að hafa vald á tungumálinu.“

Auglýsing

læk

Instagram